Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sögulegar sættir eða svik við Palestínumenn?

epa08601316 US President Donald J. Trump announces a peace agreement to Establish Diplomatic ties, with Israel and the United Arab Emirates, in Washington, DC , USA, 13 August 2020.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Viðbrögð heimsbyggðarinnar við samkomulagi Ísraela og Sameinuðu arabísku furstadæmanna í gær eru með ýmsum hætti.

Með samkomulaginu lofa Ísraelar að fresta áætlun sinni um að innlima stærri svæði á vesturbakka Jórdan-ár en þegar hefur verið gert. Þeirri ákvörðun er víða fagnað. Ríkin munu jafnframt stofna til diplómatískra tengsla en Ísrael hefur ekki átt nein slík samskipti við Arabaríkin við Persaflóa.

Hið ómögulega hefur tekist

Donald Trump Bandaríkjaforseti fagnaði samkomulaginu mjög í gær og sagði að hið ómögulega hefði tekist, að koma á diplómatískum tengslum Arabaríkis og Ísraels.

Kínastjórn telur ákvörðun Ísraela að ætla að fresta frekari innlimun á Vesturbakkanum draga úr spennu á svæðinu og auka líkur á jafnvægi og friði. Frakkar og Þjóðverjar eru sama sinnis og Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kveðst vongóður um að samkomulagið verði til þess að Ísrael og Palestína hefji að nýju viðræður um tveggja ríkja lausn.

Talskona Evrópusambandsins segir niðurstöðuna góða fyrir ríkin tvö og miðausturlönd. Evrópusambandinu sé einnig mjög í mun að koma á tveggja ríkja lausn milli Ísraels og Palestínu.

Jórdanir segja möguleikann á friði ráðast af sjónarmiðum Ísraela varðandi tveggja ríkja lausnina. Forseti Egyptalands kveðst vonast til að samkomulagið auki hagsæld og stöðugleika á svæðinu. Sérstaklega mikilvægt sé að Ísrael standi við loforð sitt varðandi innlimun landsvæða í Palestínu.

Samkomulagið þjónar ekki hagsmunum Palestínu

Palestínumenn fordæma samninginn hástöfum og ætla að kalla sendimenn sína heim frá furstadæmunum. Abbas forseti segir samninginn svik við málstað Palestínu og Hazem Qasem talsmaður Hamas, sem ræður ríkjum á Gaza-svæðinu, telur það ekki þjóna hagsmunum Palestínumanna. Hann segir að nú sé verið að umbuna Ísraelsmönnum fyrir langvarandi hernám á svæðinu.

Íranir, sem lengi hafa átt í útistöðum við Ísrael, segja samninginn heimskulegan og hann muni auka frekar andstöðu gagnvart Ísraelsmönnum. Jafnframt verði furstadæmunum seint fyrirgefið að semja við þá.

Tyrkir fullyrða að furstadæmin séu að svíkja málstað Palestínumanna til þess eins að þjóna eigin hagsmunum. Erdogan forseti segir Sameinuðu arabísku furstadæmin stefna friðaráætlun Arababandalagsins í tvísýnu með samkomulaginu við Ísrael.