
Segir orðsporsáhættu fylgja hlutabótaleið
Vinnumálastofnun spáir 8,6% prósenta atvinnuleysi í ágúst og telur að það aukist lítið fram í september, enda fjölgi afskráningum þegar fólk fer í nám. Almennt atvinnuleysi í júlí var 7,9% og voru 17.104 á atvinnuleysisskrá í lok júlí. 3.811 voru á hlutabótaleiðinni, en verulega hefur dregið úr þeim fjölda frá því sem mest var.
Hlutabótaleiðin fellur úr gildi um næstu mánaðamót og var haft eftir Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, í sjónvarpsfréttum í gær, að hún teldi ekki þörf á að framlengja hana.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir ástæðu þess að hlutabótaleiðin sé ekki meira nýtt vera þær þrengingar sem gerðar voru á henni.
Segir orðsporsáhættu fylgja hlutabótaleiðinni
„Samtök atvinnulífsins vöruðu eindregið við þessu í umsögn sinni til Alþingis þegar skilyrðin voru þrengd og varnaðarorð okkar eru því miður að raungerast,“ segir Halldór í samtali við fréttastofu.
Fyrirtækin dragi í efa að það borgi sig fyrir þau að nýta hlutabótaleiðina.„Það er óhætt að fullyrða að margir atvinnurekendur meta það sem svo að það fylgi því orðsporsáhætta að nýta hlutabótaleiðina, enda sjáum við það í þessum tölum,“ segir hann.
Vilja líka að greiðslur í sóttkví verði framlengdar
Drífa Snædal, forseti ASÍ, er sátt við þær þrengingar sem gerðar voru á hlutabótaleiðinni og segir marga hafa nýtt sér hana. „Við höfum lagt það til við stjórnvöld að framlengja hlutabótaleiðina og reyndar laun í sóttkví líka sem renna út í lok september,“ segir Drífa og bendir á að mun fleiri séu að nýta sér hlutabótaleiðina nú en gerðu í kjölfar hrunsins.
Halldór segir mikilvægt að hafa í huga að hlutabótaúrræðið var hannað fyrir launafólk, ekki fyrir fyrirtækin í landinu. „Það að fyrirtækin í landinu og launafólk séu að nýta þetta í minna mæli en ella er ekki vegna þess að vel gangi í íslensku atvinnulífi,“ segir hann. Þvert á móti sé búið að þrengja skilyrðin það mikið að og setja það þröngar skorður inn í úrræðið að fyrirtæki leiti annarra leiða til að draga úr launakostnaði. „Sú þróun mun því miður halda áfram,“ segir Halldór og kveður stöðuna í íslensku atvinnulífi vera tvísýna um þessar mundir.
Þurfa að vera reiðubúin að grípa til aðgerða
Drífa segir nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að beita margvíslegum aðferðum, enda liggi ekki fyrir hve lengi kórónuveirufaraldurinn muni vara.
„Það sem við vitum hins vegar er að við þurfum að vera tilbúin undir það að grípa til sóttvarna við og við. Það þýðir það að fyrirtæki geta þurft að endurskipuleggja sig, fækka starfsfólki á vöktum og svo framvegis,“ segir hún. Hlutabótaleiðin hafi nýst þeim fyrirtækjum og því starfsfólki vel til að endurskipuleggja sig og halda starfseminni gangandi.