Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir Icelandair hafa fækkað ferðum umtalsvert

14.08.2020 - 09:16
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Samkvæmt flugáætlun Icelandair verða umsvif félagsins í september um fjórðungur þess sem  þau voru í sama mánuði í fyrra. Þetta sagði Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hann sagði þar að áhugavert væri að sjá hvernig félagið hygðist standa við núverandi skuldbindingar sínar miðað við miklu lægri tekjur.

 

Kristján sagðist hafa skoðað flugáætlun Icelandair út september á heimasíðu félagsins á miðvikudagskvöldið. Þar voru áætlaðar 102 ferðir í síðustu vikunni í september, um 37% af ferðum félagsins á sama tíma í fyrra. Þegar hann skoðaði áætlunina aftur snemma í morgun hafði ferðunum verið fækkað í 66 sem er um fjórðungur ferðanna á sama tíma í fyrra.

„Það er búið að fækka ferðunum verulega og þar munar mestu að það er búið að taka út eiginlega allt flug til Bandaríkjanna á ný. Félagið gerði ráð fyrir, þessa síðustu viku í september, að fljúga 18 ferðir til Bandaríkjanna. Það átti að hefja flug til borga eins og New York og líka til Toronto í Kanada. En nú er þetta eiginlega bara allt farið út á ný. Áfram eru hlutirnir að breytast nokkuð hratt og það er verið að draga úr áætluninni töluvert,“ sagði Kristján.

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir