Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segir geitungafjöldan svipaðan og í fyrra

14.08.2020 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Staðan á geitungastofninum er svipuð í ár og í fyrra að mati Steinars Smára Guðbergssonar meindýraeyðis. Hann segir geitungana þó hafa verið seinni af stað á höfuðborgarsvæðinu þetta sumarið en oft áður. 

„Þeir fóru rólegar af stað heldur en í fyrra, það var svo kalt í byrjun sumars,“ segir hann. Geitungarnir hafi því verið um hálfum mánuði seinna á ferð nú en í fyrra

Frá því Steinar hóf störf sem meindýraeyðir árið 2005 hefur útköllum vegna geitunga fjölgað á hverju ári og svo er einnig nú. Hann segir aðeins meira að gera þetta sumarið en í fyrra. 

Svipaður fjöldi útkalla kemur til vegna holugeitunga og trjágeitunga. „Ég var að fjarlægja holubú í gær sem var á við sementspoka að stærð og þar í voru um 6.000 geitungar,“ segir Steinar. Þeir hafi allir verið skapstyggir, enda sé holugeitungurinn almennt óútreiknanlegri en trjágeitungurinn.

Kópavogur er það sveitarfélag þar sem mest hefur borið á geitungunum þetta sumarið í vinnunni hjá Steinari. „Í fyrra hafði Mosó vinninginn, en í hitteðfyrra hafði Kópavogur vinninginn og ég verð að segja að Kópavogur kom aftur sterkari inn en flest önnur sveitarfélög.“

Útköllin eru líka mörg vegna geitunga í Vesturbæ, Hlíðum og í miðbæ Reykjavíkur. „Svona gömul og gróin hverfi þar sem er meira skjól,“ segir Steinar og kveður nýrri hverfi þar sem gróðursældin er minni sleppa betur.