Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Saka stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi um pyntingar

14.08.2020 - 22:44
Fjöldi fólks í Hvíta-Rússlandi hefur lýst illri meðferð og barsmíðum af hendi lögreglu og öryggissveita. Mannréttindasamtök segja að sannanir bendi til að pyntingum sé beitt ítrekað og skipulega gegn friðsömum mótmælendum.

Nærri sjö þúsund hafa verið handtekin, hundruð eru særð og tveir eru látnir í mótmælum sem beinast að stjórnvöldum eftir nýafstaðnar forsetakosningar í Hvíta-Rússlandi. Alexander Lúkasjenkó var lýstur sigurvegari með um áttatíu prósent atkvæða en fáir leggja trúnað á þær tölur. 

Á meðal mótmælenda í gær voru hundruð verkamanna sem kröfðust þess að atkvæðin yrðu talin að nýju. Mótmælendur vísuðu til einnar af fáum óháðum skoðanakönnunum sem voru gerðar, hún benti til að Lukasjenkó fengi aðeins þrjú prósent atkvæða. 

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja sannanir hrannast upp um skipulagða herferð stjórnvalda sem pynti friðsama mótmælendur. Fjöldi fólks sem var handtekið síðustu daga hefur nú stigið fram og lýst skelfilegri reynslu sinni. 

Svetlana Tiknhanovskaya, sem bauð sig fram gegn Lukashenko, var sjálf handtekin á mánudag og neydd til að lesa upp yfirlýsingu þar sem hún játaði ósigur í kosningunum. Hún flúði til Litháen og þaðan hefur hún hvatt mótmælendur til dáða.