Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rannsakar fornleifar jarðskjálfta og spáir stórskjálfta

14.08.2020 - 19:24
Búast má við enn stærri jarðskjálftum úti fyrir Norðurlandi á næstu árum og áratugum, að mati jarðeðlisfræðings sem rannsakar fyrri skjálftavirkni á svæðinu. Hann vonast til að rannsóknirnar geti spáð fyrir um hvernig jarðhræringar þróast á flekamótunum.

Alþjóðlegt teymi hefur verið við vinnu í sumar á brotabelti ofan Húsavíkur, og rannsakað það sem má kalla fornleifafræði jarðskjálfta.

„Með því að grafast fyrir um áhrif frá risastórum skjálftum fyrr á öldum, bæði í sagnfræðilegum heimildum og líka frá forsögulegum tíma, skoða jarðlögin, þá má átta sig betur á því hvað getur hugsanlega gerst á þessum skjálftabeltum hér á Íslandi,“ segir Sigurjón Jónsson, prófessor í jarðeðlisfræði.

Skjálftahrinan sem verið hefur fyrir mynni Eyjafjarðar frá í júní stendur enn, en virknin er breytileg eftir vikum. Sigurjón tók þátt í leiðangri með Veðurstofunni og Landhelgisgæslunni í vikunni, þar sem settir voru upp GPS-mælar úti fyrir Ólafsfirði.

„Það er erfitt að gera mælingar af hafsbotni þannig við röðum mælum hér við norðurströndina til að fylgjast eins vel og við getum með þessari virkni sem á sér stað úti í sjó.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd - Aðsend
Sigurjón Jónsson setur upp mæli með Veðurstofunni í vikunni.

Má búast við skjálfta á bilinu 6-7

Sigurjón bendir á að hrinan sem nú stendur yfir sé sú mesta í um fjóra áratugi, en fjöldi skjálfta segi ekki alla söguna.

„Að mínu mati er hugsanlega spennulosunin í þessari miklu hrinu ígildi aðeins 2-3 ára spennuuppsöfnunar. Þetta er í rauninni óveruleg spennuútlosun, og gæti því framkallað enn stærri jarðskjálfta - á bilinu 6-7 - á næstu áratugum eða árum.“

Sigurjón starfar við háskóla í Sádí-Arabíu og segir jarðfræðina svipaða hér og við Rauðahafið, en Ísland sé meðal fárra staða í heiminum þar sem hægt er að rannsaka þessi brotabelti ofansjávar.

„Og því er hægt að læra ýmislegt af skjálftakerfunum hérna og rekbeltunum á Íslandi og heimfæra það yfir á aðra staði í veröldinni, í úthöfunum, meðal annars í Rauðahafinu.“