Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ösnuðust til Rómar og sömdu smásögur í sóttkvínni

Mynd: Jórunn Sigurðardóttir / Jórunn Sigurðardóttir

Ösnuðust til Rómar og sömdu smásögur í sóttkvínni

14.08.2020 - 14:07

Höfundar

Í febrúar síðastliðnum breyttist löngu skipulögð Rómarferð systranna Steinunnar G. Helgadóttur og Helgu S. Helgadóttur í sóttkví. Fyrst í Róm og síðan hér heima, sem varð til þess að þær skrifuðu í sameiningu smásagnasafnið Hótel Aníta Ekberg.

Nú rúmum fimm mánuðum síðar er safnið komið út og því skyldi auðvitað fagna með fjölmenni í Norræna húsinu. Af því gat ekki orðið heldur fögnuðu systurnar aðeins með nánustu fjölskyldu og einni útvarpskonu heima í stofu. 

„Þetta byrjaði allt með því að við systur ösnuðumst til Rómar þegar við hefðum ekki átt að gera það og komum heim 29. febrúar akkúrat þegar fólk sem var að koma heim var sett í sóttkví. Við fórum auðvitað í sóttkví hvor á sínu heimili og svo fórum við að tala saman á netinu um fólkið sem hafði verið með okkur á hótelinu sem er alveg við Trevigosbrunninn.“

Fljótlega fóru systurnar svo að senda á milli sín sögur um einstakar persónur sem dvöldu með þeim á hótelinu og úr varð smásagnasafnið Hótel Aníta Ekberg, enda senan úr kvikmynd Fellinis La dolce vita þegar Anita Ekberg veður út í Trevi gosbrunninn mjög eftirminnileg.

Smásagnasafnið Hótel Aníta Ekberg inniheldur ellefu smásögur, sex eftir Steinunni G. Helgadóttur og fimm eftir Helgu S. Helgadóttur. Allar sögurnar segja frá litríkum persónum sem fyrir tilviljun lokuðust inni í sóttkví á þessu ákveðna hóteli. Þetta eru meðal annars aldraðar vinkonur frá Bretlandi, þriggja manna fjölskylda frá Hollandi, glæpasagnahöfundur, líklega frá Noregi og  ung kona sem er matar–áhrifavaldur á Instagram vegna óbrigðuls bragð- og lyktarskyns síns og ekki má gleyma dyraverðinum sem þarf að henda reiður á að allt þetta fólk hegði sér í samræmi við sóttvarnarreglur sem enginn veit nákvæmlega hvernig eru enda faraldurinn enn eitthvað alveg nýtt í heiminum. 

Eins og kannski má ímynda sér eru þetta nokkuð súrrealískar sögur og höfundarnir gefa sannarlega ímyndunarafli sínu um samferðafólkið á hótelinu jafnt sem sig sjálfar lausan tauminn enda hvað getur ekki gerst á svo fordæmalausum tímum.

Bókin er myndskreytt af myndlistarmanninum Siggu Björg Sigurðardóttur sem gefur hverri sögu sína einstöku mynd.

Mynd með færslu
 Mynd: Kápa - Samsett mynd
Dyravörðurinn á Hótel Anita Ekberg og Trevi gosbrunnurinn eftir Siggu Björg Sigurðardóttur

Steinunn G. Sigurðardóttir er löngu þekkt fyrir einstaka sagnalist sína í bókum eins og t.d. Raddir út húsi loftskeytamannsins og Sterkasta kona í heimi. Þá hefur Steinunn sent frá sér tvær ljóðabækur. Helga S. Helgadóttir hefur skrifað tvær barnabækur um hana Blæ sem býr í vesturbænum og heita þær Dóttir veðurguðsins og Húsið á heimsenda.