Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Öllum sagt upp á b5 og eigandi ósáttur við aðgerðaleysi

Mynd með færslu
 Mynd:
Öllu starfsfólki skemmtistaðarins b5 í Bankastræti hefur verið sagt upp og eigandi staðarins hefur ekki getað borgað leigu í þrjá mánuði. Þórður Ágústsson, eigandi b5, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hann sé ósáttur við skort á úrræðum fyrir fyrirtæki í þessari stöðu.

Í Morgunblaðinu segir Þórður að fyrirtæki hans hafi tæmt alla sína sjóði. Sjálfur hafi hann sett fé inn í reksturinn og hann standi nú frammi fyrir þeirri spurningu hvort hann eigi að halda áfram að ausa peningum inn í „eitthvert svarthol“ til að geta greitt fasteignafélaginu Eik, sem á húsnæðið, leigu.

Þórður segir fyrirtæki sitt hafa gengið einkar vel og varpar þeirri spurningu fram í blaðinu hvers vegna leigufélagið þurfi ekki líka að taka á sig einhverjar byrðar. Engar aðgerðir hafi verið kynntar til að koma til móts við fyrirtæki sem ekki hafi getað starfað vegna ákvarðana stjórnvalda og hann óttast að tíminn sé á þrotum.