Norður-Kóreustjórn hefur aflétt útgöngubanni í borginni Kaesong nærri landamærum Suður-Kóreu. BBC greinir frá þessu.
Aðgangur að borginni hefur verið bannaður síðan seint í júlí eftir að fullyrt var að liðhlaupi smitaður af kórónuveirunni hefði snúið þangað aftur.
Norður-Kórea lokaði landamærum sínum þegar í janúar, fyrst ríkja, og miklar ferðahömlur hafa verið í gildi innanlands síðan þá. Leiðtoginn Kim Jong-un fullyrðir að engin tilfelli Covid-19 hafi greinst í Norður-Kóreu en sérfræðingar telja það harla ólíklegt.
Í Suður-Kóreu hafa greinst 103 ný smit, 85 þeirra eru innanlandssmit. Þau eru talin eiga uppruna sinn í kirkjum og skyndibitastöðum. Þar í landi hafa alls tæplega 15 þúsund smitast og 305 látist.
Yfirvöld íhuga nú að setja strangari reglur um fjarlægð milli fólks og til að draga úr stórum samkomum.