Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Milljarðahagsmunir af því að komast hjá hörðum aðgerðum

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna á ársgrundvelli. Þetta kemur fram í nýbirtu minnisblaði sem unnið var að beiðni  fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra og var haft til hliðsjónar við ákvarðanatöku um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum.

Þar kemur fram að almennt sé efnahagslegur ávinningur af opnum landamærum en rök færð fyrir því að efnahagslegur ávinningur af tíðum og fjölbreyttum samgöngum sé þó líklega minni við núverandi aðstæður þar sem víðtækar sóttvarnaaðgerðir eru í öllum okkar helstu viðskiptalöndum.

Kostnaður við faraldurinn dreifist ójafnt

Þá kemur fram að fá smit, jafnvel aðeins eitt, geti haft í för með sér mikinn kostnað og einnig að kostnaður af faraldrinum og sóttvarnaaðgerðum dreifist ekki jafnt á þjóðfélagshópa.

Þá er efnahagslegur kostnaður af smitum, ótta við smit og sóttvarnaráðstöfunum talinn verulegur og óefnislegur kostnaður af því að faraldurinn geisi einnig.  Vísað er í niðurstöður rannsóknar í Bandaríkjunum sem sýni að samfélagslegur kostnaður af hverju COVID-19 smiti væri jafnvirði um 40 milljóna króna á núverandi gengi.

Árangur í sóttvörnum ýtti undir aukna innlenda eftirspurn

Þá er tekið fram að Í sumar hefur innlend eftirspurn tekið hraðar við sér en búist var við í fyrstu. Vísbendingar eru um að einkaneysla hafi verið mun sterkari á öðrum ársfjórðungi en talið var fyrr í sumar. Árangur í sóttvörnum skiptir þar miklu máli. 

Ekki er gerð tilraun til að spá fyrir um fjölda koma ferðamanna þar sem algjör óvissa ríki um horfur í ferðaþjónustu á heimsvísu.  
Katrín Jakobsdóttir sagði á upplýsingafundi ríkisstjórnar í dag aukningu í greindum kórónuveirusmitum innanlands og á heimsvísu kalla á strangari landamæraskimun og aukna sóttkví allra sem hingað koma. Reglurnar taka gildi næsta miðvikudag.

 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV