
Meirihlutinn bætir við sig samkvæmt könnun
Greint er frá niðurstöðunum í blaðinu í dag. Samkvæmt þeim fengi meirihlutinn nú 15 fulltrúa kjörna, en er með 12 og Sjálfstæðisflokkurinn fengi sex.
Þar kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 23,4% fylgi, en fékk 30,8% í kosningunum. Eyþór Arnalds, oddviti flokksins í borginni, segir í Fréttablaðinu að fylgið dreifist mikið, eins og gerist á miðju kjörtímabili. Niðurstöðurnar séu brýning um að vera sterkur valkostur við meirihlutann.
Samfylkingin mælist næststærsti flokkurinn með 19,4% fylgi, Píratar eru með 15,9%, Vinstri græn með 11,4%, Viðreisn með 11,2%, Sósíalistaflokkurinn með 7,1%, Miðflokkurinn með 4,8% og Flokkur fólksins með 2,9%. Viðreisn myndi, samkvæmt skoðanakönnuninni, bæta við sig einum fulltrúa, Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkurinn halda sínum eina fulltrúa en Flokkur fólksins myndi missa borgarfulltrúa sinn.
Könnunin var gerð af Zenter rannsóknum 16. júlí - 23. ágúst og var send á Reykvíkinga 18 ára og eldri. 1.275 voru í úrtakinu og svarhlutfall var 51%.
Framsóknarflokkurinn fékk ekki fulltrúa kjörinn í síðustu borgarstjórnarkosningum og mælist nú með 2,6%.