Niðurstöður könnunarinnar sýna meðal annars að um þriðjungur þátttakenda upplifði óöryggi í skólanum vegna kynhneigðar, 25% upplifðu óöryggi vegna kyntjáningar og 18% vegna kyns. Um 40% þátttakenda sögðust forðast búningsklefa og 33% forðuðust leikfimitíma. 23% svarenda sögðust jafnframt vera fjarverandi í einn dag eða fleiri á mánuði vegna óöryggis í skólanum.
Könnunin er samstarfsverkefni samtakanna 78, Teachers College, Columbia University og GLSEN (Gay, Lesbian, & Straigt Education Network). Þátttakendur voru 181 nemandi á aldrinum 13-20 ára, sem sóttu grunn- eða framhaldsskóla á Íslandi á skólaárinu 2016-2017 og skilgreindu sig sem samkynhneigða, tvíkynhneigða eða með annarri kynhneigð en gagnkynhneigð, trans eða með aðra kynvitund en sís-kynja.
Tæplega helmingur svarenda hafði oft eða mjög oft heyrt einhvern nota orðið „gay“ til að lýsa einhverju á niðrandi hátt og 34% sögðust hafa oft eða mjög oft heyrt niðrandi ummæli um hinsegin fólk í skólanum. 17,3% nemenda sögðust hafa heyrt oft eða mjög oft fordómafull ummæli um trans fólk og 28% þátttakenda sögðust hafa oft, stundum og sjaldan heyrt fordómafull ummæli frá starfsfólki skólans.
Þegar niðrandi orðfæri sem beinist að hinsegin fólki var notað í viðurvist kennara eða starfsfólks segja rúm 45% svarenda þau grípa aldrei inn í, tæp 18% segja þau gera það alltaf eða oftast. Á sama tíma segja rétt tæp 70% svarenda að fleiri en 10 kennarar eða starfsfólk styðji hinsegin nemendur í skólanum þeirra.
Fræðslustýra Samtakanna '78, Tótla I. Sæmundsdóttir, mun kynna niðurstöður könnunarinnar og ræða hvernig hægt sé að stuðla að hinseginvænu skólaumhverfi í beinu streymi á vef Samtakanna '78 klukkan 15.