Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Í mínu lífi er Barbí í bílstjórasætinu“

Mynd: Margrét Jónasdóttir / Aðsend

„Í mínu lífi er Barbí í bílstjórasætinu“

14.08.2020 - 15:16

Höfundar

Margrét Jónasdóttir sagnfræðingur gerðist óvænt kvikmyndagerðarkona eftir örlagaríkt spjall við kunningja í biðröð inn á skemmtistað. Hún er alin upp í Garðabænum og hefur sem framleiðandi hjá Sagafilm tekið viðtal við Mick Jagger og unnið við heimildamyndir um meðal annars morðmál, efnahagshrun og þorskastríðið.

Hún er yngst fjögurra systkina og eina stelpan, alin upp og í dag búsett í Garðabænum með dóttur sinni. Margrét var sex ára þegar hún var færð upp í átta ára bekk og fékk sæti við hliðina á bróður sínum.

Héldu að systkinin væru kærustupar

Þau fylgdust að í gegnum grunnskóla og Menntaskólann í Reykjavík, voru og eru bestu vinir og kipptu sér ekki upp við að fólk skyldi halda að þau væru tvíburar. „Margir gamlir félagar úr Garðabæ halda enn að við séum tvíburar,“ segir Margrét. Í fimmtugsafmæli Margrétar hélt Lárus bróðir hennar ræðu og sagði að honum hefði reyndar stundum þótt erfitt þegar fólk misskildi samband þeirra. „Sumir héldu að við værum kærustupar,“ segir hún og hlær. „En við erum enn góðir vinir og tölum saman mörgum sinnum á dag.“

Sumarið hefur farið í leitina að Barbí

Í sumar hefur Margrét ferðast um landið með dóttur sinni og einnig dvalið í bústað fjölskyldunnar í Grímsnesi. Hún hefur líka nýtt tímann í samkomubanni og heimsfaraldri í að grúska í gömlu dóti og rifja upp bernskuminningar. Sagnfræðingurinn er enda mikill safnari og hefur hún fundið margt í leit sinni, en annað er glatað. „Sumarið hefur farið í leitina að Barbí. Ég held að hún hafi hlaupist á brott,“ segir hún. „Ég er búin að stilla upp Barbíhúsinu og bílnum og setja Ken með speglasólgleraugun í farþegasætið - því í mínu lífi þá keyrir auðvitað Barbí.“

„Frábært, gerum heimildarmynd“

Margrét rekur heimildardeild Sagafilm og segir það í raun tilviljun að hún hafi orðið framleiðandi. „Ég var á leið í doktorsnám í sagnfræði, hafði verið í meistaranámi í London og kom heim í jólafrí. Var þá búin að skila tillögu að mastersverkefni og ég var bara að gera eins og menn gera, stúdentar í jólafríi, á leið á bar,“ rifjar hún upp. Í röðinni fyrir utan skemmtistaðinn hitti hún vin sinn sem er kvikmyndagerðarmaður. Á meðan þau biðu eftir að komast inn segist hann vera að skrifa handrit að ástarsögu sem gerist í þorskastríðinu. Sjálf var Margrét á þeim tíma að undirbúa ritgerð um afdrif breskra togarasjómanna eftir síðasta þorskastríð. „Hann segir: Frábært! Byrjum á að gera heimildamynd.“ Úr verður þriggja þátta sería um þorskastríðið sem nefnist Cod Wars.

Steindi Jr. í framsætinu að leika Geirfinn á biluðum bíl

Margrét hefur upplifað margt í starfi sínu sem framleiðandi og segir að ein besta sagan sé frá því hún var að framleiða myndina Out of thin air, sem fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Í myndinni eru leiknar senur sem byggja á heimildunum og því voru margir á setti, leikarar og tæknifólk. Það var Steinþór Hróar Steinþórsson sem lék sjálfan Geirfinn í myndinni og í einni tökunni sat hann við stýrið á gömlum bíl og átti að keyra í burtu - en bíllinn fór ekki í gang. „Þá þurfti að setja bílinn í hlutlausan og ýta af stað. Ég fór í það,“ segir Margrét. „Þá var kallað: Magga, nennirðu að ýta aðeins hraðar en vera ósýnileg?“

Gamlir bekkjarfélagar í efnahagshruninu

Þegar BBC, sem Margrét hefur áður starfað með, bað hana að gera mynd um efnahagshrunið leist henni illa á blikuna fyrst um sinn enda kannaðist hún við ýmsa þá sem spiluðu stórt hlutverk í þeirri atburðarás. „Þarna var fólk á mínum aldri og gamlir bekkjarfélagar,“ segir Margrét sem nýverið, nokkrum árum eftir fyrstu þreifingar, ákvað að slá til. „Ég sagði: Ég skal gera mynd um hvernig var undið ofan af hruninu og hvað var vel gert,“ segir hún, og vill heldur kalla myndina upprisumynd en hrunmynd.

Þora ekki að tala við sænskan blaðamann eftir Wintris-viðtalið

Hún valdi að hafa sænskan leikstjóra með sér í verkefninu og óheppilega reyndist sá hafa starfað sem rannsóknarblaðamaður. Það hefur komið sér illa þegar þau eru að reyna að ná tali af fólki sem man of vel eftir Wintris-viðtalinu fræga sem sænski rannsóknarblaðamaðurinn Sven Bergman tók við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, „en hann er leikstjóri, víðsýnn og mjög reyndur og mér finnst gott að fá svona reynslu erlendis frá til að þróa og bæta,“ segir Margrét um leikstjórann.

Viðtal við Mick Jagger

Það var svo röð tilviljana sem leiddi Margréti á slóðir skærustu stjarnanna í bransanum og varð til þess að hún tók meðal annars viðtal við sjálfan Mick Jagger. „Þetta var sannkölluð celebrity-súpa,“ segir Margrét. Hún var að vinna í annarri heimildamynd um leikkonuna og ljósmyndarann Carinthiu West sem var uppgötvuð á strætóstoppistöð í London. „Hún var sextán ára, rosalega falleg og með langa leggi. Það gefur sig á tal við hana maður sem spyr hvort það megi taka af henni myndir.“ Carinthia samþykkir og mætir í stúdíó í myndatöku á þá reynist það vera stúdíó sjálfs Erics Claptons og það er ljósmyndari Bítlanna sem vill taka myndir af henni. „Upp frá því kynnist hún fólkinu í rokkbransanum og bestu vinir hennar í dag eru Mick Jagger, Ronny Wood og John Hurt,“ segir hún. Margrét hitti Carinthiu og smullu þær saman svo Margrét samþykkti að gera mynd um leikkonuna með því skilyrði að hún fengi að taka viðtal við eilífðartöffarann Mick Jagger, söngvara Rolling Stones. Fyrr en varði sat hún með rokkaranum sjálfum og tók við hann viðtal sem birtist í myndinni, en hana á eftir að frumsýna.

Jakob Birgisson ræddi við Margréti Jónasdóttur í Sumarsögum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Lögregluþjón dreymir um að komast í kvenfélagastarf

Myndlist

„Okkur var boðið kampavín, svo fóru þau úr herberginu“