Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Höfða mál gegn Nestlé vegna fiskidauða í Frakklandi

14.08.2020 - 14:28
Verksmiðja Nestlé í Challeragne í Frakklandi
 Mynd: Google Maps
Frönsk fiskveiðisamtök hafa nú höfðað mál gegn matvælaframleiðandanum Nestlé vegna fiskidauða í á í norðausturhluta Frakklands. Nokkur tonn af dauðum fiski fundust í Aisne ánni í nágrenni verksmiðju Nestlé í Challerange um helgina.

Breska ríkisútvarpið BBC segir skyndilegan súrefnisskort í ánni vera ástæðu fiskidauðans. Unnið er að rannsóknum á uppruna mengunarinnar. Mjólkurduft er framleitt í verksmiðju Nestlé í Challerange og hefur verið staðfest í yfirlýsingu frá fyrirtækinu að fyrir slysni hafi lífrænt botnfall flætt úr frárennsliskerfi verksmiðjunnar út í ána. Engin aukaefni hafi þó verið í frárennslinu.

Michel Adam, yfirmaður Fédération de peche des Ardennes samtakanna, segir skaðann metinn á nokkur þúsund evrur. „Það dó allt sem var á svæði sem var sjö kílómetra langt og 30 metra breytt,“ segir Adam.

„Við erum þegar búin að hreinsa þrjú tonn af dauðum fiski og það er enn fiskur í ánni. Þetta hefur haft áhrif á 14 tegundir, þar á meðal ál og steinsugu sem eru friðaðar. Ég hef verið hjá samtökunum í 40 ár og ég hef aldrei séð mengun á þessum skaða,“ bætti hann við.

Tony do Rio, stjórnandi verksmiðjunnar, segir vinnu hafa verið stöðvaða um leið og Nestlé frétti af menguninni. Um einstakt atvik hafi verið að ræða og botnfallið hafi flætt út út í ána í innan við þrjár klukkustundir á sunnudagskvöld.

Sjálfboðaliðar, fiskimenn og slökkviliðsmenn hafa undanfarna daga unnið að því að hreinsa fiskinn úr ánni og var bráðabirgðastífla sett upp í ánni til að hindra frekari útbreiðslu.

Anna Sigríður Einarsdóttir