Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Handtekin í Hvíta-Rússlandi greina frá miklu ofbeldi

14.08.2020 - 15:55
epa08602355 Belarusians leave a detention center in Minsk, Belarus, 14 August 2020, where protesters were kept following recent protests against the presidential election results. According to media reports, nearly 7,000 people have been detained and hundreds injured in the crackdown on demonstrators protesting the official results. Long-time President of Belarus Alexander Lukashenko won the elections by a landslide with 80 percent of the votes, a result questioned and protested by the oppositions. Main opposition leader Svetlana Tikhanovskaya fled to Lithuania after rejecting the election results she claimed was rigged.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mótmælendur lausir úr haldi lögreglu í Hvíta-Rússlandi hafa lýst grimmilegu framferði löggæslumanna og sýnt ljósmyndir af sárum sínum og marblettum. Amnesty International lýsir framferðinu sem víðtæku ofbeldi.

Mótmælin brutust út á sunnudag í kjölfar nýafstaðinna forsetakosninga en niðurstaða þeirra er dregin mjög í efa.

Einn þeirra handteknu lýsir í langri Facebook-færslu atferli lögreglumanna sem hann telur, auk innlendra, vera rússneska sérsveitarmenn. Hann greinir frá hörkulegri framgöngu lögreglumanna íklæddum bardagaklæðnaði sem báru þungar kylfur og beindu vélbyssum að mótmælendum með hrópum og köllum.

Höggin dundu

Fólk var fellt til jarðar og látið krjúpa eða liggja meðan höggin voru látin dynja á því. Barsmíðarnar héldu áfram uns fólk missti meðvitund, og jafnvel lengur. Fjölmargir liggja á sjúkrahúsi með skotsár, skurði og brotin bein. Eftir handtöku var fjölda fólks troðið inn í lögreglubíla, svo mörgum að erfitt varð um andardrátt.

Hann lýsir hvernig símar voru teknir af fólki og þeir brotnir, hvernig stigið var á háls astmaveikum manni og konum hótað nauðgun. „Við erum í einangrunarbúðum þar sem fólk er pyntað,“ segir í Facebook-færslunni.

Þegar maðurinn sjálfur var handtekinn segir hann lögreglumenn hafa troðið handsprengju ofan í buxur hans og hlaupið á brott með þeim orðum að dauði hans yrði skráður af völdum óþekkts sprengiefnis.

BBC hefur rætt við allmarga, þar á meðal táninga, sem segjast hafa mátt þola barsmíðar og annað ofbeldi. Viðmælendur segjast ekkert skilja í ofbeldinu. Natalya Kochanova, forseti hvít-rússneska þingsins, segir forsetann hafa fyrirskipað rannsókn á fjöldahandtökunum og aðstoðarinnanríkisráðherrann Alexander Barsukov þvertekur fyrir að handteknir hafi verið beittir ofbeldi.

Um 6.700 hafa verið handtekin í mótmælunum í Hvíta-Rússlandi, minnst tvö eru látin og fjöldi fólks hefur hlotið áverka.