Ekki hefur tekist að rekja yfir 36 smit

14.08.2020 - 19:00
Ekki hefur tekist að rekja uppruna að minnsta kosti 36 smita í stórri kórónuveiruhópsýkingu sem kom upp um miðjan júlí. Smit eru í öllum landsfjórðungum en yfirmaður smitrakningarteymis Almannavarna telur líklegt að veiran hafi dreifst um landið með fólki á ferðalagi í sumar.

Smitrakningarteymi Almannavarna samanstendur af lögreglumönnum og hjúkrunarfræðingum sem hafa staðið í ströngu síðustu vikur við að rekja þau smit sem greinast hér á landi. Stór hópsýking kom upp í sumar og um 120 af þeim 128 sem eru sýktir tengjast henni, þar sem allir eru með sömu stökkbreyttu tegund veirunnar.  Ekki hefur tekist að rekja uppruna smitsins en ljóst er að það hafi komið erlendis frá.

„Við erum að sjá fyrstu smitin koma um miðjan júlí. Og það er þessi hópsýking, í rauninni upphafið á henni,“ segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningardeildar Almannavarna.
 
Stóra hópsmitinu er skipt í 36 minni hópa.

„Hóparnir í rauninni eru allir með tengingar innbyrðis. Þau smit tengjast öll. En eru ekki tengingar á milli hópa? Nei, þá vantar kannski hvernig sá hópur eða einstaklingur í þeim hóp hefur smitast. Mögulega skýrist það með tímanum. En við getum ekki fullyrt með alla þessa hópa hvaðan uppruninn kemur,“ segir Jóhann.

Veiran dreifst með fólki á ferðalagi

Smitrakningarteymið heldur utan um smitin í sérstökum gagnagrunni þar sem meðal annars sést hvernig þau dreifast um landið. Kórónuveirusmit eru nú í öllum landsfjórðungum, langflest þó á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er eitt og eitt smit um landið. Það kemur til af því að fólk er búið að vera að ferðast. Margir hafa verið að greinast hér á höfuðborgarsvæðinu eftir ferðalög um landið. Það er partur af því sem við erum að vinna með, hvert það hefur verið að fara,“ segir Jóhann.

Þannig hafi smitrakningarteymið undanfarnar vikur þurft að hafa samband við fólk sem er á ferðalagi og sent það í sóttkví. Það er oft snúnara en í vetur þegar flestir voru heima við. Jóhann segir að flestir sem hafi smitast undanfarnar vikur séu með smitrakningarappið og það hjálpi mikið til. 

„Það er það sem þetta byggist allt á. Að fólk fari eftir þessu og haldi sóttkvína. Þannig heftum við útbreiðsluna,“ segir Jóhann. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi