Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Borgarstjóri vill nýjan kennslu- og einkaflugvöll

14.08.2020 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Borgarráð tók í gær fyrir bréf borgarstjóra til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytiss frá því í byrjun júlí þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fer fram á það við ráðuneytið að fundinn verði nýr staður fyrir kennslu og einkaflug án tafar.

Í bréfi borgarstjóra til samgönguráðherra vísar borgarstjóri til samkomulags sem gert var á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar í október árið 2013 þar sem kom fram að innanríkisráðuneyti og Isavia skuli hafa forgöngu um að finna nýjan stað fyrir kennslu og einkaflug i grennd við Reykjavík. 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram bókun við meðferð málsins þar sem kemur fram að afar mikilvægt sé að æfinga- og kennsluflug fái nýja staðsetningu einkum í ljósi þess hve mikilvæg atvinnugrein flugið er þrátt fyrir tímabundið bakslag vegna heimsfaraldurs.

Mikill yfirgangur borgarstjóra

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu aftur fram bókun sem segir að yfirgangur borgarstjóra sé mikill í þessu máli. Á tímum COVID-19 hafi Reykjavíkurborg ítrekað óskað eftir skattfé úr ríkissjóði. Ekki sé langt síðan sú ósk kom frá Reykjavíkurborg að ríkið myndi láta borgina hafa tugi milljarða í neyðaraðstoð þar sem borgin væri ógjaldfær og gætiátt erfitt með að halda uppi lögbundinni grunnþjónustu. Forgangsröðun fjármuna sé hér undarleg. 

Ekki tímabær aðgerð

Vigdís Hauksdóttir, áheyrnarfulltrúi Miðflokks lagði fram þessa bókun: „Þessi krafa borgarstjóra undirstrikar andúð á menntastofnuninni Reykjavíkurflugvöllur og þjónkun við þá örfáu borgarbúa sem amast við kennslu og einkaflugi. Enginn flugvöllur getur tekið við kennslufluginu því Reykjavíkurflugvöllur er eini flugvöllurinn á SV-horninu með þjónustaðar flugbrautir og með flugumferðarstjórn í loftrými utan Keflavíkurflugvallar. Ómögulegt er að útskrifa flugnema með réttindi án þess að þeir fái ítarlega þjálfun í flugi um stjórnað loftrými og umferð á stjórnuðum flugvelli. Þá er nauðsynlegt fyrir nám til atvinnuflugs að þjálfa flugmenn í aðflugi að stjórnuðum flugvöllum og með blindflugsbúnað. Öllum má vera ljóst að flugumferð um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og kennslu- og einkaflug fer á engan hátt saman. Bygging og rekstur nýs flugvallar með þeim búnaði og þjónustu sem alþjóðlegar reglugerðir krefjast til flugnáms yrði gríðarlega kostnaðarsöm aðgerð, sem eingöngu virðist vera til að bola Fluggörðum á brott.“ 

Þá lagði Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins einnig fram bókun sem segir þessa aðgerð ekki tímabæra. „Óvissan um staðsetningu fyrir nýjan flugvöll er alger, gildir þá einu hvaða skoðanir fólk hefur á hvort völlurinn eigi að vera eða fara. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir.“ segir í bókuninni. 

Hér má lesa fundargerð borgarráðs í heild sinni.