
Vill breyta sturtunum því hárið þarf að vera fullkomið
Í frétt á vef breska ríkisútvarpsins segir að samkvæmt lögum frá 1992 séu sturtuhausar landsins þannig gerðir að þeir geti ekki losað meira en tæpa tíu lítra af vatni á mínútu, í ljósi umhverfissjónarmiða þar sem vatn getur verið af skornum skammti. Ríkisstjórn Bandaríkjanna vill breyta þessu á þann veg að takmarkið taki til hvers hauss fyrir sig, en ekki sturtunnar sem heildar. Þannig að séu margir sturtuhausar í einum sturtuklefa þá streymi tíu lítrar úr hverjum haus, svo dæmi sé tekið.
Orkumálaráðuneyti Trumps lagði þetta til í gær eftir að forsetinn hafði lagt fram kvörtun í Hvíta húsinu í síðasta mánuði. Haft er eftir Trump að vatnsskorturinn í sturtunni hjá honum geri það að verkum að hann standi einfaldlega lengur í henni. Þetta sé bagalegt vegna þess að hár hans þurfi að vera fullkomið.
„Málið með sturtuhausa - þú ferð í sturtu og vatnið kemur ekki. Þú vilt þvo þér um hendurnar, vatnið kemur ekki. Svo hvað gerirðu? Þú stendur bara lengur eða ferð í lengri sturtu? Vegna þess að hárið á mér, ég veit ekki með þig, en það þarf að vera fullkomið. Fullkomið,” er haft eftir Trump á BBC.
Neytenda- og náttúruverndarsamtök hafa gagnrýnt þetta harðlega. Þetta sé bæði sóun á vatni og algjörlega ónauðsynlegt.