Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Varla anda að sér íslensku lofti nema á vellinum“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

„Varla anda að sér íslensku lofti nema á vellinum“

13.08.2020 - 13:35
FH mun spila leik sinn við slóvakíska liðið Dunajská Streda í forkeppni Evrópudeildarinnar í Kaplakrika að óbreyttum aðstæðum hér á landi. Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, segir að félögin þurfi að uppfylla gríðarstrangar kröfur af hálfu Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA.

Óvíst var hvort FH gat haldið Evrópuleikinn hér á landi vegna skilyrða um sóttkví en samkvæmt Valdimari hafa FH-ingar fengið grænt ljós frá bæði UEFA og KSÍ auk íslenskra stjórnvalda miðað við núverandi aðstæður.

„Það er planið núna, við erum með allt uppfyllt þangað til að annað kemur í ljós,“ sagði Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, við Íþróttadeild RÚV. „Ef að sóttvarnarlæknir myndi breyta reglunum aftur erum við náttúrulega í vandræðum. En eins og staðan er í dag er þetta allt í góðu og við eigum að geta tekið á móti liðinu hérna og allt fer fram samkvæmt eðlilegum forsendum.“ bætir hann við.

FH-ingar hafa haft í nógu að snúast síðustu daga þar sem kröfurnar af hálfu UEFA og stjórnvalda hér á landi eru ekkert grín. Leikmenn slóvakíska liðsins þurfa gott sem að vera í einangrun fyrir utan mínúturnar 90 af fótbolta í Krikanum.

„Það má eiginlega segja að liðið sem kemur hingað til landsins, að það varla andar að sér íslensku lofti nema á vellinum og er einangrað á allan hátt, má segja. Þetta eru mjög sterkar og miklar kröfur sem bæði við og þeir þurfa að uppfylla,“ segir Valdimar sem útlistar hluta krafanna:

„Liðið þarf að koma með einkaflugvél með landsins, fara eins hratt og auðið er í gegnum alla skoðun og svo í einkarútu. Þeir þurfa að fara á hótel þar sem mega ekki deila matsal með öðrum eða fundarherbergjum.“

Leikur FH og Dunajská Streda fer fram 27. ágúst líkt og Evrópuleikir Breiðabliks og Víkings sem eiga að leika erlendis.