Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tímarnir okkar: Húkkuðum far með góðærislestinni

Mynd: RÚV / Samsett mynd

Tímarnir okkar: Húkkuðum far með góðærislestinni

13.08.2020 - 09:26

Höfundar

„Þetta er í rauninni endirinn á hefðbundinni plötuútgáfu, hún er í andarslitrunum þarna út af tækniframförum og breyttum viðskiptaháttum,“ segir Bergur Ebbi Benediktsson um tímann þegar hljómsveit hans Sprengjuhöllin gaf út plötu sem hét einmitt Tímarnir okkar árið 2007.

Sprengjuhöllin skaust gríðarhratt upp á stjörnuhimininn stuttu áður og eftir útkomu plötunnar árið 2007 en önnur plata þeirra sem kom út ári síðar féll ekki jafn vel í kramið og lognaðist höllin út af stuttu síðar. Bergur Ebbi Benediktsson söngvari og Atli Bollason hljómborðsleikari ræddu tilurð plötunnar og samfélagið sem hún kom út í við Lovísu Rut Kristjánsdóttur í Geymt en ekki gleymt. Líta þeir þá kannski á sig sem eins konar góðærishljómsveit?  „Ég held í ljósi þess að við vorum 21-26 á þessum tíma og varla með fjárráð, þá hefur mér alltaf liðið bara eins og farþega, svona eins og þegar maður skoðar Öldina okkar,“ segir Bergur Ebbi Benediktsson. „Þessi hljómsveit var uppi á þessum tíma en mér finnst það ekkert endurspeglast í tónlistinni eða textunum.“

Atli Bollason tekur undir þetta en segir þó líklegt að Sprengjuhöllin hafi haft ýmsan óbeinan ágóða af téðum tímum „Við stigum ekki um borð í þessa lest en ég held við höfum smá húkkað far með henni. Í þeim skilningi að við fengum mörg fínt borguð gigg sem ég held að sé snúnara núna. Við fengum líka peninga til að búa plötuna til sem ég held að heyri til algjörra undantekninga í dag.“ Bergur Ebbi tekur undir þetta og segir að þarna hafi hefðbundin plötuútgáfa verið á lokametrunum. „Ég heyrði eina góða greiningu á okkur, að Sprengjuhöllin væri síðasta hljómsveitin sem bæði meikaði það, og lagði upp laupana, í gamla kerfinu.“

Að hafa skoðanir á öllu og hugsa sig til dauða

Að sögn Atla tók Sprengjuhöllin meðvitaða afstöðu og staðsetti sig í andstöðu við lopapeysukrútt og innhverft indí. „Vorum stoltir af þessum sprengjukrafti. Við sendum plötuna á nokkrar útgáfur en okkur fannst kúl að gefa út hjá Senu, það var einhvers konar counter-indie statement. Í því ljósi vorum við kannski í takt við einhvern tíðaranda sem þarna var í gangi.“ Bergur segir að það trend hafi að mörgu leyti haldið áfram, „að brenna þessar brýr milli meginstraums og indímenningar, að sameina há- og lágmenningu í massamenningu. Og vera smá stoltur af hugmyndinni um popp.“

Í laginu Síðasta bloggfærsla ljóshærða drengsins má svo finna ýmsar pælingar sem eiga vel við internetkúltúr dagsins í dag og Bergur Ebbi hefur kannað betur síðan, fyrst í blaðagreinum og svo bókunum Stofuhiti og Skjáskot. „Ég held það megi skipta út bloggfærslu fyrir yfirlýsingakúltur, ákveðna samfélagsmiðlamenningu,“ segir Bergur Ebbi. „Það að þurfa að hafa skoðanir á öllu og troða sjálfsmynd sinni inn í öll narratív. Þetta er fyndið því þetta hefur orðið mitt hugðarefni síðan, ég held þessi angi okkar menningar hafi bara aukist ef eitthvað er. En þetta er líka um það ævarandi spursmál: Hvað það er erfitt að vera hugsjónamanneskja og hvernig þú getur hugsað þig til dauða.“

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Berg Ebba Benediktsson og Atla Bollason um Tímana okkar í Geymt en ekki gleymt. Hægt að er hlusta á þáttinn í heild sinni í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Myndlist

Skjáskot af skjá sem eignast sjálfstætt líf

Menningarefni

Ekki alveg heimsósómamegin við línuna

Tækni og vísindi

Úr rúllustiganum í fjórðu iðnbyltinguna

Popptónlist

Tímarnir okkar 10 ára: „Vorum ekki hógværir“