Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrír ráðherrar á Indlandi greinst með Covid-19

epa08591165 Indian laborers wear protective face masks as they wait for work in Dharamshala, Himachal Pradesh, India, 08 August 2020. As lockdown process ease in some cities in India, migrant laborers are returning in search of work.  EPA-EFE/SANJAY BAID
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir 47 þúsund hafa nú látist vegna Covid-19 á Indlandi en þar er faraldurinn í hröðum vexti. Varnarmálaráðherra landsins greindist með veiruna í gær, og því eru nú þrír ráðherrar í ríkisstjórninni með staðfest smit.

Indland er eitt örfárra ríkja þar sem kórónuveirusmit fóru ekki að greinast að ráði fyrr en í apríl. Það þótti tíðindum sæta því landið er það næst fjölmennasta í heimi og líklegt að veiran hafi grasserað þar vikum eða jafnvel mánuðum áður en fyrstu tilfelli greindust. Faraldurinn hefur vaxið hratt í sumar og það sem af er ágústmánuði hafa flest staðfest tilfelli veirunnar á heimsvísu á dag greinst á Indlandi. Þar eru smit nú 2,4 milljónir og rúmlega 47 þúsund hafa látist.

Nærri níu þúsund eru alvarlega veik, en það er aðeins í Bandaríkjunum sem fleiri veikjast alvarlega vegna Covid-19. Engu að síður hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hrósað indversku ríkisstjórninni fyrir aðgerðir sínar til að hefta útbreiðslu. Það sé hægara sagt en gert að skima og rekja smit á sumum af þéttbýlustu svæðum jarðar, en þetta hafi tekist á Indlandi og þó að smitum fjölgi hratt, þá hafi aðgerðir stjórnvalda skilað góðum árangri.

Þrír ráðherrar í indversku ríkisstjórninni hafa smitast, en Shripad Naik, ráðherra innanríkis- og varnarmála, greindi frá því í morgun að hann hefði smitast. Áður höfðu Amit Shah fjölskyldumálaráðherra og Dharmendra Pradhan olíumálaráðherra greinst með veiruna. Naik sagði frá þessu á Twitter og hvatti þá sem hann hafði umgengist síðastliðna viku að fara í skimun og sóttkví.