Telur skrifstofuklefa taka við af opnum rýmum

13.08.2020 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - Burst
Kínverski athafnamaðurinn og milljónamæringurinn Xu Weiping vinnur nú að því að breyta 20 skrifstofubyggingum sem hann á í London í 2.000 litla skrifstofuklefa, sem hann segir vera vinnuaðstöðu framtíðarinnar.

Guardian fjallar um málið og segir Xu telja kórónuveirufaraldurinn hafa þau áhrif að fólk vilji ekki lengur vinna í opnu skrifstofu umhverfi, heldur vilji hver vera út af fyrir sig í litlum klefum.

Skrifstofuklefarnir eru 3 metrar að flatarmáli og í þeim má finna skrifborð, stól, ísskáp, örbylgjuofn, hraðsuðuketil, skjá og rúm sem verður hægt að fella niður.

Xu var með byggingu skrifstofuhúsnæðis í Docklands í smíðum og var búinn að leigja út rúmlega helming þeirra þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Einungis einn leigjendanna stóð við gerða samninga og flutti inn.

Hann lagði höfuð lengi í bleyti og reyndi að hugsa upp leiðir til að tryggja að byggingarnar kæmust í notkun. „Ég áttaði mig á því að við gætum þurft að búa okkur undir að veiran eigi eftir að vera lengi hjá okkur,“ sagði Xu. „Við þurfum því að búa til umhverfi þar sem við getum unnið í öryggi og dregið úr þeim tíma sem við erum í almannasamgöngum og auka starfsánægju á vinnustað.“

Svarið voru skrifstofuklefar þar sem starfsfólk fyrirtækja og verktakar geta unnið hlið við hlið, en engu að síður af öryggi í eigin klefa. „Þetta mun gjörsamlega breyta skrifstofumenningu,“ sagði Xu sem telur framkvæmdina mögulega vera þá fyrstu sinnar tegundar.

Frumgerð af sýningarklefanum verður kynnt innan tveggja mánaða og Xu býst við að fyrstu leigjendurnir geti flutt inn síðar í haust. Leiguverðið liggur enn ekki fyrir, en verður einhvers staðar á bilinu 800-1600 pund á mánuði (140-280 þúsund krónur).

„Við munum beina sjónum okkar að viðskiptavinum sem eru tregir til að snúa aftur í hefðbundið skrifstofuumhverfi,“ segir hann. „Jafnvel þó að stjórnvöld séu að hvetja fólk til að fara aftur á skrifstofuna þá er fólk ekki að fara þangað. Við viljum öll okkar einkarými og þetta verður einkarými sem samtvinnar kosti þess að vinna heima.“

Njóti skrifstofuklefarnir vinsælda þá ætlar Xu að breyta öllum byggingunum sem hann er með í endurbyggingu á svæðinu í 10.000 slíka klefa.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi