Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tap sex fjölmiðlafyrirtækja nam rúmum milljarði króna

13.08.2020 - 23:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tap sex íslenskra fjölmiðlafyrirtækja nam alls meira en milljarði króna í fyrra. 25 fjölmiðlaveitur sóttu um að skipta 400 milljóna króna ríkisstyrkjum á milli sín.

Alþingi samþykkti í vor heimild til að veita einkareknum fjölmiðlum sérstakan 400 milljóna króna rekstrarstuðning. Stuðningnum er ætlað að stemma stigu við efnahagslegum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum. Umsóknarfrestur rann út 7. ágúst. 25 fjölmiðlaveitur sóttu um en þar undir eru þó fleiri miðlar.

Fréttastofa tók saman rekstrarniðurstöðu nokkurra helstu fjölmiðlafyrirtækja landsins fyrir síðasta ár. Þetta eru Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið, Torg sem gefur út Fréttablaðið og DV, og Frjáls fjölmiðlun, sem gaf út DV áður en það var selt Torgi. Líka Birtingur, Stundin, Kjarninn og Myllusetur, sem gefur út Viðskiptablaðið.

Öll þessi útgáfufélög voru rekin með tapi í fyrra, að undanskildu Myllusetri sem skilaði tæplega tveggja milljóna króna hagnaði. Tapið hjá þeim fyrirtækjum sem skiluðu tapi nam samtals tæplega 1.100 milljónum króna en var þó mjög mismikið, minnst hjá Kjarnanum og Stundinni, en hjá Frjálsri fjölmiðlun, Torgi, Árvakri og Birtingi var það í kringum 2-300 milljónir króna hjá hverju fyrir sig.

Sýn, sem rekur Stöð 2, Vísi og Bylgjuna, og Síminn, sem rekur Sjónvarp Símans, njóta sérstöðu því í grunninn eru þau fjarskiptafyrirtæki og fjölmiðlarekstur er aðeins hluti af starfseminni, því eru þau ekki tekin inn í samtöluna hér. Síminn var heilt yfir rekinn með hagnaði en Sýn með tapi.

  • Árvakur tapaði 291 milljón króna
  • Birtingur tapaði 236 milljónum króna
  • Frjáls fjölmiðlun tapaði 318 milljónum króna
  • Kjarninn tapaði 5,7 milljónum króna
  • Myllusetur hagnaðist um 1,6 milljón króna
  • Síminn hagnaðist um 3.070 milljónir króna
  • Stundin tapaði 12,9 milljónum króna
  • Sýn tapaði 1.748 milljónum króna
  • Torg tapaði 212 milljónum króna
tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV