Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sumarið mjög gott en ekki hægt að lifa veturinn af

13.08.2020 - 19:20
Mynd: RÚV - Úlla Árdal / RÚV - Úlla Árdal
Ferðagleði Íslendinga innanlands í sumar dugir ekki til að lifa veturinn af, segir hótelstjóri við Mývatn. Hún neyðist til að skella í lás í haust og flytja burt með fjölskylduna.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fækkaði gistinóttum á hótelum landsins í júlí um tæp fimmtíu prósent milli ára. Rúmanýting var ríflega 45 prósent, samanborið við rúm 70 prósent í júlí í fyrra.

Atvinnulífið í Skútustaðahreppi treystir að stórum hluta á ferðaþjónustuna. Og þar, eins og víða annars staðar, er óvissan mikil.

„Við erum að fara að loka 31. ágúst og það verður bara skellt í lás. Lítið af gestum að fara að koma eftir það og þessi ákvörðun var bara tekin núna í sumar, þó sumarið hafi verið mjög gott og ánægjulegt að sjá Íslendingana koma og flykkjast út á land. En hér er bara búið að segja öllum upp og verður ekki neitt fyrr en á næsta ári bara,“ segir Edda Hrund Guðmundsdóttir Skagfield, hótelstjóri á Hótel Laxá.

Edda segir að hótelnýtingin í júlí hafi verið 25 prósent, samanborið við 95 prósent í sama mánuði í fyrra. Það segi þó ekki alla söguna. Til dæmis er mikill tekjumissir af stórum hópum frá skemmtiferðaskipum sem borðuðu í sveitinni. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Úlla Árdal
Hótel Laxá.

„Værum ekkert að fara nema í svona árferði“

„Við vinnum aðallega á þessari innkomu á sumrin, fyrir veturinn. Safna í forðann, sko. Það því miður, þá er innkoman ekki nóg í flestum tilfellum til að lifa veturinn af,“ segir Edda.

Hún er því á leið burt með fjölskylduna eftir lokun í haust.

„Við værum ekkert að fara nema í svona árferði. En það kemur bara eitthvað gott og nýtt í staðinn.“

Nýr sveitarstjóri í Skútustaðahreppi tók við í byrjun ágúst og bíður það verkefni að bregðast við stöðunni. Fleiri fjölskyldur eru á leið burt.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Úlla Árdal
Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Hefur mikil áhrif en skapar tækifæri á sama tíma

„Það eru svona í kringum tuttugu manns sem ég veit af sem eru að hugsa sér til hreyfings og eru á þeirri leið,“ segir Sveinn Margeirsson sveitarstjóri.

Það hefur einnig áhrif á skólastarf á svæðinu og Sveinn býst við að íbúafjöldi í Skútustaðahreppi fari niður fyrir 500 eftir mikla fjölgun síðustu ár.

„Þannig það hefur mikil áhrif og það er ekki auðvelt að eiga við það. En á sama tíma eru tækifæri, mörg tækifæri, og nú kannski ríður á að bæði sveitarfélagið og fjárfestar og auðvitað ríkisvaldið horfi til þeirra mikilvægu fjárfestinga sem eru mögulegar á svæðinu,“ segir Sveinn Margeirsson.