Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fækkaði gistinóttum á hótelum landsins í júlí um tæp fimmtíu prósent milli ára. Rúmanýting var ríflega 45 prósent, samanborið við rúm 70 prósent í júlí í fyrra.
Atvinnulífið í Skútustaðahreppi treystir að stórum hluta á ferðaþjónustuna. Og þar, eins og víða annars staðar, er óvissan mikil.
„Við erum að fara að loka 31. ágúst og það verður bara skellt í lás. Lítið af gestum að fara að koma eftir það og þessi ákvörðun var bara tekin núna í sumar, þó sumarið hafi verið mjög gott og ánægjulegt að sjá Íslendingana koma og flykkjast út á land. En hér er bara búið að segja öllum upp og verður ekki neitt fyrr en á næsta ári bara,“ segir Edda Hrund Guðmundsdóttir Skagfield, hótelstjóri á Hótel Laxá.
Edda segir að hótelnýtingin í júlí hafi verið 25 prósent, samanborið við 95 prósent í sama mánuði í fyrra. Það segi þó ekki alla söguna. Til dæmis er mikill tekjumissir af stórum hópum frá skemmtiferðaskipum sem borðuðu í sveitinni.