Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sögulegar sættir Ísraels og Arabísku furstadæmanna

epa08601319 US President Donald J. Trump announces a peace agreement to Establish Diplomatic ties, with Israel and the United Arab Emirates, in Washington, DC , USA, 13 August 2020.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa komist að friðarsamkomulagi. Þetta tilkynntu Donald Trump Bandaríkjaforseti, Benjamin Netanyahu og Mohammed Al Nayhan krónprins furstadæmanna í sameiginlegri yfirlýsingu í dag.

Þeir segja samkomulagið glæða vonir um að friðvænlegra verði í Mið-Austurlöndum. Ekkert stjórnmálasamband hefur verið milli Ísraels og arabaríkjanna við Persaflóa en áhyggjur vegna aukinna ítaka Írana á svæðinu hafa leitt til óformlegrar samvinnu þeirra á milli.

Donald Trump greindi frá samkomulaginu á Twitter með þeim orðum að risastórt skref hefði verið stigið í átt að friðarsamkomulagi milli tveggja frábærra vina Bandaríkjanna, Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Netanyahu deildi tístinu með orðunum „Sögulegur dagur".

Sendiherra furstadæmanna í Bandaríkjunum fagnaði samkomulaginu og sagði það mikinn sigur fyrir Mið-Austurlönd og diplómatísk samskipti ríkjanna þar. Samningurinn myndi draga úr spennu og auka líkurnar á jákvæðum breytingum um svæðið allt.

Skref í átt að tveggja ríkja lausn

Yfirvöld í furstadæmunum sögðu í yfirlýsingu að samkomulagið væri skref í rétta átt varðandi tveggja ríkja lausn í deilu Ísraela og Palestínumanna. Ætlunin væri jafnframt að Ísraelsstjórn frestaði enn frekar áætlunum sínum um innlimun hernuminna svæða á Vesturbakka Jórdan-ár.

Leiðtogarnir þrír segjast hafa svipaða sýn varðandi ógnir og tækifæri á svæðinu auk þess sem þeir séu staðráðnir í að koma á stöðugleika með efnahagslega samvinnu, aukið öryggi og diplómatísk tengsl að leiðarljósi.

Á komandi vikum stendur til að sendinefndir ríkjanna tveggja hittist til að undirrita tvíhliða samninga um fjárfestingar, ferðamennsku, orku, heilbrigðismál, menningar- og umhverfismál og síðast en ekki síst að setja upp sendiráð í ríkjunum.

Í yfirlýsingu ríkjanna kemur einnig fram að ætlunin sé að vinna með Bandaríkjunum að herfræðilegri áætlun fyrir Mið-Austurlönd.

Friðarsamningurinn nú er sá þriðji frá stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Árið 1979 gerðu Ísraelar og Egyptar sögulegan samning eftir áratuga ófrið milli landanna og 1994 var undirritaður samningur milli Jórdaníu og Ísraels. Hann batt endi á 46 ára stríðsástand þeirra í milli.