Sex innanlandssmit greindust

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali
Sex virk innanlands greindust í gær, öll greindust þau á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Fjórir eru á aldrinum átján til 29 ára, einn á sjötugsaldri og eitt er barn á leikskólaaldri.

Tvö ný smit voru á Suðurnesjum og þrjú á Suðurlandi, þar af að minnsta kosti eitt í Vestmannaeyjum. Ekki liggur fyrir hvort fólkið var í sóttkví. Fjórir bíða niðurstaðna mótefnamælingar eftir landamæraskimun.

Nýgengi innanlandssmita og á landamærunum stendur í stað, 23,7 Innanlands og 4,6 í landamæraskimun. 

Í heild fækkaði í sóttkví um 46 manns síðan í gær en fimm bættust við í einangrun. Einn er enn á spítala og liggur á gjörgæslu.

Nú eru því 88 í einangrun á höfuðborgarsvæðinu, sjö á Suðurlandi, sex á Suðurnesjum, sex á Vesturlandi, fjórir á Norðurlandi eystra, þrír á Vestfjörðum, tveir á Austurlandi, einn á Norðurlandi vestra og þrír eru óstaðsettir. 

Alls voru 2488 skimaðir í landamæraskimun, 695 á sýkla- og veirufræðideild og aðeins 27 hjá Íslenskri erfðagreiningu.

 

Alma D. Möller, landlæknir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir fara yfir stöðu mála, varðandi framgang COVID-19 faraldursins hér á landi ásamt Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni á upplýsingafundi Almannavarna klukkan tvö.

Gestur fundarins í dag er Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.

Uppfært 11:29

 
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi