RIFF verður að miklu leyti rafræn kvikmyndahátíð

Mynd með færslu
 Mynd: RIFF

RIFF verður að miklu leyti rafræn kvikmyndahátíð

13.08.2020 - 14:11

Höfundar

RIFF, alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, verður haldin í haust þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Sýningar hátíðarinnar verða mikið til á rafrænu formi auk þess sem boðið verður upp á viðburði sem samræmast reglum vegna COVID-19.

Hrönn Marínósdóttir, stjórnandi RIFF, segir í fréttatilkynningu að hátíðin verði færð í nýjan búning til að bregðast við breyttum aðstæðum vegna COVID-19. Gestum verði færðar evrópskar kvikmyndir heim í stofu auk þess sem hægt verði að sækja fróðlegt efni á vef hátíðarinnar, svo sem „spurt og svarað“ með leikstjórum, umræður og fleira. „Með þessu móti munu enn fleiri kvikmyndaunnendur um land allt geta notið vandaðra kvikmynda,“ segir Hrönn.

Hátíðin verður sett 24. september og stendur til 4. október. Dagskráin verður gerð opinber þegar líða tekur á september en miði á hátíðina veitir aðgang að fjölda kvikmynda sem hægt verður að nálgast á þar til gerðu vefsvæði. Um er að ræða sama vefviðmót og notað hefur verið á öðrum kvikmyndahátíðum, til að mynda Copenhagen Pix, Locarno Film Festival í Sviss og Sundance kvikmyndahátíðinni. Ekki er ljóst hvernig miðasölu verður háttað, en samkvæmt tilkynningu verður það kynnt þegar nær dregur hátíðinni.

Þá verða ýmsir viðburðir á dagskrá sem samræmast þeim reglum sem í gildi verða í samfélaginu er líður að hátíðinni, segir enn fremur í tilkynningu. Ákveðið hefur verið að Bransadagar fari fram í Norræna húsinu auk þess sem barnadagskrá með kennsluefni verður í boði fyrir alla skóla landsins.

Frédéric Boyer, sem er listrænn stjórnandi Tribeca kvikmyndahátíðarinnar í New York og Les Arcs European Film Festival, fer fyrir dagskrárnefnd RIFF í ár.  Hann hefur einnig verið aðaldagskrárstjóri Director's Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Sem fyrr verður lögð áhersla að sýna vandaðar, evrópskar kvikmyndir á RIFF.

Í tilefni af afhendingu Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Hörpu stendur RIFF einnig fyrir sýningum á kvikmyndum fram í desember í samstarfi við Evrópsku kvikmyndaakademíuna. „Þetta er spennandi tækifæri til að leyfa hátíðinni að lifa lengur inn í haustið og geta sýnt enn fleiri kvikmyndir,“ segir Hrönn Marínósdóttir.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Leikhúsin lokuð fyrir gestum í upp undir hálft ár

Kvikmyndir

Vatnaskil í bíóheiminum vestra

Kvikmyndir

Skortur á bíómyndum háir kvikmyndahúsum hér á landi

Kvikmyndir

Claire Denis tók við heiðursverðlaunum RIFF