Rafræn Drusluganga gefur jaðarsettum hópum orðið

Mynd: Sólveig Klara Ragnarsdóttir / Sólveig Klara Ragnarsdóttir

Rafræn Drusluganga gefur jaðarsettum hópum orðið

13.08.2020 - 14:07
Í ár hefði tíunda Druslugangan farið fram og undir venjulegum kringumstæðum hefði hún verið gengin niður Skólavörðustíginn í lok júlí. Í staðinn var ákveðið að gangan yrði rafræn í ár með útgáfu rafræns tímarits.

Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachman, sem er í skipulagskjarna göngunna, segir að munurinn sé talsverður á meðvitund og þekkingu fólks í dag samanborið við fyrir tíu árum þegar gangan var fyrst gengin, almennt viti fólk meira um kynferðisofbeldi og afleiðingar þess. Margt jákvætt hafi líka sprottið upp í kjölfarið af aukinni umræðu, orðalagsbreyting á nauðgunarákvæðinu í hegningarlögunum og opnun á athvörfum eins og Bjarkahlíð. „Það er hins vegar margt sem við eigum eftir og við erum enn þá á byrjunarreit hvað varðar marga jaðarsetta hópa,“ bætir hún við

Druslugangan byrjaði sem samstöðu- og mótmælaganga fyrir þolendur kynferðisofbeldi og til að berjast gegn nauðgunarmenningu en hefur síðustu ár þróast út í það að berjast fyrir kynbundnu ofbeldi alls staðar. Fyrsta gangan í heiminum var gengin í Toronto árið 2011 (e. The Slut Walk) en Kolbrún segir að gangan hafi þróast hvað mest hér á Íslandi. „Við erum lítið land og það er auðveldara að ná til okkar hér. Aðrir eru kannski fastir í því að hugsa um klæðaburð og hvernig fólk talar á meðan við erum að færa okkur aðeins lengra og víkka sjóndeildarhringinn,“ bætir hún við. 

Rafræna gangan í ár fer þannig fram með útgáfu rafræns veftímarits á vefsíðu Flóru útgáfu. Þar hafa verið birtar fimmtán mismunandi greinar sem tækla mismunandi málefni og gefa jaðarsettari hópum tækifæri á að tjá sig og taka meðal annars fyrir fötlunarfordóma, fitufordóma og kynþáttafordóma. Markmiðið er að fólk lesi greinarnar, deili þeim, veki umræður og nái til sem flestra. 

Viðtal við Kolbrúnu Birnu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Jafnréttismál

Engin Drusluganga í ár – gefa út vefrit