Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Myndbönd lögreglu af morðinu á Floyd gerð opinber

Mynd: AP / AP
Upptökur úr myndavélum lögreglumannanna sem urðu Bandaríkjamanninum George Floyd að bana í maí voru birtar opinberlega í gær eftir dómsúrskurð. Á myndskeiðunum má heyra Floyd biðja lögreglumennina um að sýna sér miskunn. Hann minnist margsinnis á að hann sé haldinn innilokunarkennd, og biðlar til lögreglumannanna um að skjóta sig ekki. Rétt er að vara við efni myndbandsins.

Biður ítrekað um að verða ekki skotinn

Myndskeiðin sem birtust í gær hefjast á því að lögreglumennirnir banka á bílrúðu Floyds og biðja hann um að sýna á sér hendurnar. Floyd biðst vægðar og segist ekkert hafa gert af sér. Hann þráspyr lögregluna hvað hann hafi gert af sér án þess að fá svör samkvæmt myndbandinu. Hann biður lögregluna ítrekað um að skjóta sig ekki, og greinir frá því að móðir hans hafi nýverið látið lífið. Einn lögreglumannanna lofar honum því að hann verði ekki skotinn.

Segist haldinn innilokunarkennd

Þegar komið er að lögreglubílnum biðja lögreglumennirnir hann um að hætta að sýna mótþróa. Floyd segist ekki ætla að gera neitt til að skaða lögreglumennina, og hann hafi ekkert skaðlegt á sér. Floyd biður svo einn lögreglumannanna um að vera sér við hlið. Hann ítrekar að hann sé haldinn innilokunarkennd. Þegar hann hefur verið snúinn niður í götuna greinir hann lögreglumönnunum frá því að hann eigi í erfiðleikum með að anda. Einn lögreglumannanna bendir honum á að það fari mikið súrefni í að tala. Þá greinir Floyd þeim frá því að hann sé nýbúinn að jafna sig af COVID-19, og eigi í erfiðleikum með að anda.

„Segið börnunum mínum að ég elski þau“

Undir lokin kallar hann ítrekað á nýlátna móður sína. „Guð minn góður. Ég trúi þessu ekki. Ég trúi þessu ekki. Ég trúi þessu ekki. Ég trúi þessu ekki maður. Mamma ég elska þig. Ég elska þig. Segið börnunum mínum að ég elski þau,“ heyrist Floyd segja. Lögreglumennirnir biðja Floyd um að róa sig. Þegar hann ítrekar að hann geti ekki andað segir lögreglan við hann að hann sé í fínum málum, hann eigi ekki í neinum erfiðleikum með að tala.

Enginn púls

Síðustu andartökin má heyra mann sem fylgist með öllu saman greina lögreglumönnunum frá því að Floyd sýni engin merki um meðvitund lengur. Hann kallar ítrekað eftir því að lögreglumennirnir taki púlsinn á Floyd. Það síðasta sem heyrist á myndbandinu er einn lögreglumannanna sem segir að finni engan púls lengur hjá Floyd.

Lögreglumaðurinn Derek Chauvin, sem þrýsti hné sínu að hálsi Floyd í nokkrar mínútur og varð honum að bana, er ákærður fyrir morð af annarri gráðu, þriðju gráðu og manndráp. Hinir þrír lögreglumennirnir eru allir ákærðir fyrir að vera vitorðsmenn. Þeir voru allir reknir úr lögreglunni í Minneapolis.

Morðið á Floyd varð kveikjan að miklum mótmælum í Bandaríkjunum um virði mannslífa þeirra sem eru svartir í Bandaríkjunum. Mótmælin eru enn hávær víða í landinu.