Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Menn áttu ekki þátt í útdauða loðinna nashyrninga

13.08.2020 - 18:15
epa04657129 A female rhinoceros, Rimba (L), and her male baby (R) eat at The Taman Safari Indonesia (TSI) Conservation Park in Bogor, Indonesia, 11 March 2015. The baby white rhinoceros was born on 10 February, weighs 75 kilograms, is the second white
 Mynd: EPA
Loðnir, tveggja tonna þungir, brúnir nashyrningar flökkuðu forðum um norð-austanverða Síberíu. Fyrir fjórtán þúsund árum hurfu þeir svo með dularfullum hætti. Mannkynið lá lengi undir grun vísindamanna um að hafa valdið útdauða nashyrninganna.

Ný DNA-rannsókn sænskra og rússneskra vísindamanna á jarðneskum leifum fjórtán þessara miklu dýra leiðir í ljós að mannkyni er ekki um að kenna.

Fjöldi nashyrninganna sem ganga undir fræðiheitinu Coelodonta antiquitatis hélst stöðugur um árþúsunda skeið. Þeim tók að fækka mjög undir lok síðustu ísaldar. Því telja vísindamenn líklegra að loftslagsbreytingum fyrir um 14 þúsund árum megi fremur kenna um útdauða nashyrninganna loðnu, en mönnum.

Erfðamengi dýranna rannsakað

Stofnstærð dýrategunda ræðst af erfðafræðilegri margbreytni og hlutfalli innræktar, segir Love Dalén, erfðafræðingur sem stjórnaði rannsókninni. Rannsakendum tókst að greina allt erfðamengi nashyrnings sem uppi var fyrir 18.500 árum. Erfðamengi einstaklings er mósaík-mynd allra forfeðra hans.

Með því að bera saman litninga sem erfðust frá móður og föður komust vísindamennirnir að því að lítið var um innrækt meðal dýranna og fjölbreytni mikil. Þegar dýrið sem var rannsakað lifði, var það hluti af stórum flokki og hið sama hlýtur að eiga við forfeður þess um árþúsunda skeið.

Þótt menn veiddu nashyrningana hélst stofnstærð þeirra nokkuð stöðug um langa hríð uns loftslag tók að hlýna. Nánasti núverandi ættingi brúna nashyrningsins lifir á Súmötru en við honum blasir aldauði vegna ofveiði og umhverfisbreytinga.