Lífstíðardómur fyrir að myrða fimm í Austurríki

13.08.2020 - 05:56
Mynd með færslu
 Mynd: Stephan Vereno - Flickr.com
Austurríkismaður á þrítugsaldri var dæmdur í lífstíðarfangelsi í gær fyrir að myrða fyrrverandi kærustu sína og foreldra hennar. Auk þess varð hann bróður hennar að bana og nýjum kærasta hennar. Maðurinn játaði sök fyrir dómi.

Árásina gerði maðurinn í skíðabænum Kitzbühel í október í fyrra. Nokkrum mánuðum áður höfðu hann og konan, sem var nítján ára, hætt saman. Hann greindi frá því í dómssal að hann hafi séð kærustuna fyrrverandi ásamt föður hennar í bænum daginn fyrir árásinu, og ákveðið að fara á dvalarstað þeirra vopnaður byssu bróður síns. Hann skaut fyrst foreldra hennar og bróður til bana, áður en hann prílaði upp á svalir næstu hæðar til þess að ráðast á konuna og kærasta hennar, sem voru steinsofandi. Nokkrum mínútum eftir árásina gaf hann sig fram við lögreglu.

Málið vakti mikla athygli í Austurríki og er eitt fjölmargra sem hafa leitt til frekari umræðu um ofbeldi gegn konum í Austurríki síðustu ár. Í síðasta mánuði var karlmaður dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir morðtilraun á eiginkonu sinni með heimagerðri bréfasprengju, í sama mánuði og morðin voru framin í Kitzbühel. 

65 morð voru framin í Austurríki í fyrra. 39 fórnarlambanna voru konur, og þekktu um þrjátíu þeirra þann sem myrti þær. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi