Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Laus úr öndunarvél og gjörgæslu

13.08.2020 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Einstaklingurinn sem lagður var inn á gjörgæsludeild og í öndunarvél er laus úr öndunarvélinni og af gjörgæslu.

Þetta kom fram hjá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni á upplýsingafundi almannavarna í dag. Sex smit voru greind innanlands  í gær og var einn hinna smituðu í Vestmannaeyjum, en fimm á höfuðborgarsvæðinu, helmingur þeirra sem nú greindust voru í sóttkví.

Karl G. Kristinsson yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans var gestur fundarins. Hann sagði að þegar neyðarástandi var lýst yfir hafi verið ljóst að tækjakostur deildarinnar hafi verið takmarkandi kostur og tækjamálin hafi mátt vera í betra lagi, þrátt fyrir að deildin hafi verið í startholunum frá upphafi faraldurs. Karl segir að tuttugu nýir starfsmenn hafi verið ráðnir á sýkla- og veirufræðideildina til að vinna að sýnagreiningu. Hann sagðist þakklátur Íslenskri erfðagreiningu fyrir þátttöku við verkefnið. Þá sé áætlað að flytja starfsemi deildarinnar í húsakynni Íslenskrar erfðagreiningar. Við það aukist afkastagetan mikið því tækjabúnaður Íslenskrar erfðagreiningar afkasti fimm þúsund sýnum á dag.

Þá kom fram hjá Víði Reynissyni að áhorfendur verða ekki leyfðir á íþróttaviðburðum sem hafa verið heimilaðir.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV