Krefjast lægri skólagjalda verði þjónusta skert

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Leifur Orri Wilberg - RÚV
Hópur nemenda Listaháskóla Íslands gagnrýnir hækkun skólagjalda á haustönn eftir að skólinn þurfti að skerða þjónustu verulega vegna kórónuveirufaraldursins í vor. Skólinn hækkaði skólagjöld fyrir önnina í bakkalárnámi um tæpar 8.400 krónur, eða 3%, og kostar önnin nú 288.167 krónur.

Gjöldin hafa hækkað um um það bil 3% árlega undanfarið. Nemendum var ekki tilkynnt um hækkunina sérstaklega en hún var birt á vef skólans í desember í fyrrra. 

Undirskriftasöfnun er hafin meðal nemenda, sem 173 hafa nú skrifað undir, þar sem farið er fram á skýrari svör og skipulag frá skólanum og yfirvöldum vegna veirufaraldursins. Virkir nemendur í skólanum í fyrra voru 560. 

Þess er meðal annars krafist að mennta- og menningarmálaráðherra og skólayfirvöld hefji samræður um lækkun skólagjalda, bæði á covid tímum en einnig undir venjulegum kringumstæðum. Þurfi að skerða skólastarf eigi að lækka gjöldin. Þá er farið fram á að skólinn auki aðgengi nemenda að vinnustofum og vinnurýmum þar sem þau séu nauðsynleg í listnáminu.

Útilokað nema aukið fjármagn berist á móti

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, segir útilokað að endurgreiða skólagjöld vegna skerðinga sem kunni að verða af völdum COVID-19 nema fjármagn berist skólanum á móti.

„Þótt ríkið hafi stofnað til Listaháskólans á sínum tíma er rekstrarmódelið þannig að við erum sjálfseignarstofnun en ekki ríkisskóli líkt og Háskóli Íslands til dæmis,” segir Fríða Björk í samtali við fréttastofu. „Uppleggið að rekstrarmódelinu hefur frá upphafi gert ráð fyrir að hluta rekstrarfjármagns sé aflað með skólagjöldum. Hingað til hafa þau numið 20% af tekjum skólans. Án skólagjaldanna er skólinn því ekki rekstrarhæfur ef viðhalda á þeim gæðum í kennslu sem við teljum nauðsynleg í háskólanámi í listum.” 

Hún segir að tekin hafi verið ákvörðun í stjórn fyrir nokkrum árum um að hækka skólagjöld í samræmi við neysluverðsvísitölu og ekki umfram það. Þó hafi einhverjar tilfærslur verið gerðar í skólagjöldum meðal annars til að samræma gjöldin á meistarastigi. 

Fríða Björk átti langan fund með þeim nemendum sem stóðu að undirskriftalistanum á þriðjudag. 

„Líkt og aðrir háskólar í heiminum stóðum við frammi fyrir því síðastliðinn vetur að sinna kennslu sem krefst oft og tíðum mikillar nándar, einungis með fjarkennslu,” segir Fríða. Það sé mjög erfitt þegar um listnám sé að ræða. „Til að mæta þeim sértæku þörfum sem listnám krefst gengum við því mjög langt í að mæta nemendum um leið og það var leyfilegt.”

Skólinn hafi opnað dyr sínar um leið og stjórnvöld gerðu það heimilt í maí og látið útskriftarnemendur ganga fyrir með því að halda útskriftasýningar og útskrift með eðlilegum hætti.

Nýjar reglur raski ekki skólastarfi

Fríða segir að með eins metra reglu í skólum og hundrað manna samkomutakmörkunum sem séu í gildi næstu tvær vikurnar eigi skólahald ekki að raskast líkt og í vor. Ólíkar áætlanir séu í burðarliðnum verði aftur hert á takmörkunum.

„Nú í augnablikinu er vinna í gangi sem menntamálaráðherra hefur kallað eftir á samstarfsvettvangi háskólastigsins þar sem skólarnir geta útlistað þær heimildir sem þeir þurfa til sértækra sóttvarna eða undanþága þannig að skólastarf geti farið fram með sem eðlilegustum hætti,“ segir Fríða Björk. 

„Höfum mjakast áfram í samanburði við önnur lönd“

Fríða Björk segir jafnframt að ítrekað hafi verið rætt við alla menntamálaráðherra undanfarin ár um hærri framlög til skólans, sama samtal eigi sér stað hjá öðrum háskólum landsins. „Við höfum mjakast áfram í samanburði við önnur lönd og samtal er í gangi um frekari styrkingu háskólastigsins í landinu. En á meðan við búum við þann rekstrarveruleika sem nú er við lýði, til dæmis í Listaháskólanum höfum við þurft að forgangsraða mjög vegna aðstöðuleysis og húsnæðismála en það sé alltaf í þágu nemenda.“  Endurbætur á húsnæði skólans eru þar í forgangi.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi