Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kórónuveiran greinst á innfluttum matvælum í Kína

13.08.2020 - 11:21
epa05698666 A wholesaler inspects frozen tuna before the first auction of the year at the Tsukiji fish market in Tokyo, Japan, 05 January 2017. A Bluefin tuna, which was caught in Oma, northern Japan, was sold for 74 million yen (631,000 US dollar), the
 Mynd: EPA Images
Kórónuveira hefur í tvígang greinst á frosnum matvælum í Kína, sem koma frá Suður-Ameríku. Nýsjálendingar rannsaka nú hvort nýlegt hópsmit þar sé vegna innfluttra matvæla.

Veiran greindist á pakkningum með frosnum kjúklingi frá Brasilíu í kínversku hafnarborginni Shenzhen í gær. Heilbrigðisyfirvöld í Kína hafa um nokkurt skeið kannað hvort veiran finnist á frosnum matvælum, en líftími hennar getur verið býsna langur á köldu eða freðnu yfirborði. Sýni sem tekin voru í borginni Wuhu af umbúðum af frosnum rækjum frá Ekvador höfðu nokkru áður einnig greinst jákvæð. Heilbrigðisyfirvöld í Shenzen hafa beint þeim tilmælum til íbúa að reyna að forðast smit með því til dæmis að snerta ekki umbúðir af innfluttum matvælum með berum höndum. Skimað hefur verið fyrir veirunni meðal starfsmanna vöruhúss þar sem veiran greindist og svo virðist sem dreifingin sé lítil eða jafnvel engin.

Þessi möguleiki hefur þó valdið óróa víða. Á Nýja-Sjálandi greindist fyrsta kórónuveirusmitið í rúma þrjá mánuði í vikunni og þar hafa stjórnvöld áhyggjur af því að hún geti hafa borist þangað með frosnum matvælum. Þar eru nú 36 virk smit og Ashley Bloomfield, landlæknir Nýja Sjálands, segir að tekist hafi að rekja þau öll og því ættu þær aðgerðir sem gripið hefur verið til að geta borið árangur hratt. 

Hann segir enn óljóst um uppruna hópsýkingarinnar í Auckland, höfuðborg Nýja-Sjálands, en þar var meðal annars sett á útgöngubann til að hefta útbreiðslu. Bloomfield segir að fram til þessa hafi yfirborðssmit líklega verið ofmetin, og líklega smitist flestir í minni rýmum með úða- og loftsmiti. Engu að síður sé það óþægileg tilhugsun að veiran geti lifað í fleiri daga á frosnum matvælum og geti jafnvel dreifst þaðan. Staðfest kórónuveirusmit á heimsvísu nálgast nú 21 milljón. Þeim fjölgar nú hraðast á Indlandi, en þar hafa fimmtíu þúsund smit eða fleiri greinst á hverjum degi síðastliðnar tvær vikur. 
 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV