Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafnar því að hækkun bóta auki atvinnuleysi

13.08.2020 - 19:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson - RÚV
Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands, hafnar ummælum forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins um að hækkun atvinnuleysisbóta dragi úr hvata fólks til að finna sér vinnu og geti þannig aukið atvinnuleysi.

Hún segir vænlegustu leiðina til að koma í veg fyrir að fólk festist í langtímaatvinnuleysi vera að gefa því kost á að bæta við þekkingu sína og hæfni. Þannig megi styrkja launafólk og efnahags- og atvinnulífið til langs tíma. 

Mikilvægt að taka mið af efnahagsástandinu

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, sagði í viðtali á Bylgjunni í morgun að hækkun atvinnuleysisbóta minnkaði hvata fólks til að leita að vinnu. Þannig gæti hún leitt til aukins atvinnuleysis.

Henný hafnar því og segir mikilvægt að taka mið af efnahagsástandinu í landinu. „Ef við horfum á þetta út frá þessu efnahagsáfalli sem við erum í núna, þar sem kemur einhver utanaðkomandi vágestur sem þessi veira náttúrulega er, og setur allt efnahagslífið í mikla óvissu, nánast stöðvar ákveðnar atvinnugreinar á mjög skömmum tíma. Þá er eiginlega ekki hægt að segja að með því að hafa atvinnuleysisbætur nægilega lágar, að þá leggi fólk harðar að sér við að finna störf. Því þessi störf eru einfaldlega ekki til staðar,“ segir Henný. 

Vilja tryggja atvinnuöryggi og hækka atvinnuleysisbætur

Henný segir mikilvægast að tryggja afkomuöryggi. „Því það sem við viljum ekki að gerist er að efnahagslægðin dýpki enn frekar vegna þess að fólk hafi ekki afkomu,“ segir hún og minnir á það fjárhagslega og félagslega tjón sem fólk verður fyrir þegar það missir vinnuna.  

Grunnatvinnuleysisbætur eru tæplega 290 þúsund krónur og Henný bendir á að útborgun sé innan við 240 þúsund krónur. Því hafi ASÍ lagt áherslu á að hækka þyrfti grunnbætur atvinnuleysistrygginga og styrkja tekjutengdu réttindin í atvinnuleysisbótum. „Til að draga úr þessu mikla tekjufalli sem fólk verður fyrir þegar það missir atvinnuna,“ segir hún. 

Vilja hjálpa fólki að bæta við sig þekkingu

Henný segir að til þess að koma í veg fyrir að fólk festist í langtímaatvinnuleysi þurfi að aðstoða það og styrkja. „Við þurfum að gefa því tækifæri. Við þurfum að nota þessa aðferðafræði virkra vinnumarkaðsaðgerða þannig að fólk geti nýtt tímann til þess að bæta þekkingu sína og hæfni. Til dæmis með því að bæta við sig menntun eða þjálfun jafnvel til nýrra starfa eða eitthvað slíkt. Þetta er eitthvað sem auðvitað styrkir einstaklinginn og gagnast efnahags- og atvinnulífinu til lengri tíma“ segir hún. 

Atvinnuleysi að jafnaði lítið hér á landi

Anna Hrefna skrifaði grein í Markaðinn þar sem fram kemur að bætur á Íslandi séu mjög háar í samanburði við önnur OECD ríki. Henný hafnar því ekki að atvinnuleysisbætur hér séu hærri en víða annars staðar en minnir á að staða Íslands fari eftir því hvaða lönd við berum okkur saman við. „Við viljum bera okkur saman við þau ríki þar sem velferð er hvað best,“ segir hún. 

Almannatryggingakerfin hafi skilað því að Ísland er meðal þeirra ríkja þar sem fátækt er hvað minnst og og jöfnuður er hvað mestur. „Og atvinnuleysi hér hefur að jafnaði verið með því minnsta sem þekkist. Það afsannar svolítið að leiðin til að draga út atvinnuleysi sé að hafa bæturnar sem takmarkaðastar“, segir hún.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV