Hafa áhyggjur af ástvinum í Hvíta-Rússlandi

13.08.2020 - 06:32
Mæðgurnar Victoria og Svetlana Zaytseva - Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Enn er framkvæmd nýafstaðinna forsetakosninga mótmælt í borgum og bæjum víða í Hvíta-Rússlandi. Tveir mótmælendur hafa látist. Yfirvöld tilkynntu í gærkvöld að tuttugu og fimm ára gamall karlmaður sem var handtekinn í mótmælum hefði látist í fangelsi.

Í gær viðurkenndu stjórnvöld að lögregla hefði á þriðjudagsnótt beitt byssum gegn mannfjölda í borginni Brest. Lögregla hafi skotið viðvörunarskotum sem hafi ekki fælt mótmælendur og því hafi verið skotið að þeim. Talið er að sex þúsund manns hafi verið handtekin. Hvít-Rússar víða um heim, meðal annars hér á landi, segja erfitt að fylgjast með atburðarásinni í heimalandinu. 

Mæðgurnar Svetlana og Victoria Zaytseva eru frá Hvíta-Rússlandi og hafa búið á Íslandi um árabil. Þær hafa áhyggjur af ástvinum sínum þar ytra. „Það er ekki hægt að fylgjast með fjölmiðlum þar núna því það er búið að loka fyrir internetið. Ég hef reynt að hringja í ættingja en hef ekki náð í neinn af því að netið er lokað og það eru truflanir á símasambandi,“ segir Svetlana. „Við erum mjög áhyggjufull af því að þarna eru allir ættingjar okkar, mamma mín er þar og við höfum áhyggjur af ástandinu,“ segir hún.

Mynd með færslu
Victoria Zaytseva. Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Tæknisérfræðingar telja að stjórnvöld hafi lokað fyrir netið

Netsamband í Hvíta-Rússlandi hefur verið mjög stopult eftir kosningarnar. Fólk kemst hvorki á samfélagsmiðla, né getur lesið fjölmiðla eða nýtt sér leitarvélar eins og Google. Yfirvöld segja að netárás frá útlöndum sé ástæðan en tæknisérfræðingar og mannréttindasamtök telja að ríkið hafi lokað netinu til að gera fólki erfiðara um vik að skipuleggja mótmæli. 

Victoria náði sambandi við vin sinn í Hvíta-Rússlandi og segir hann að lögreglan hafi afskipti af nær öllum sem fari út fyrir hússins dyr. „Fólk getur ekki labbað venjulega úti, þar sem löggur koma að þeim og spyrja um símann til þess að skoða myndir og geta bara tekið fólk,“ segir hún. „Vinur minn var að labba fram hjá mótmælendum og út af því að hann er ekki orðinn 18 ára þá var hann færður á lögreglustöðina og sagt að hann væri einn af þeim sem var að mótmæla og út af því að hann er ekki orðinn 18 þá var það sett í sakaskrána hans og hann getur verið rekinn úr framhaldsskóla.“

Mynd með færslu
Svetlana Zaytseva. Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Fólk vill breytingar eftir nær 30 ár á valdastóli

En hvers vegna brjótast þessi mótmæli út einmitt núna? „Ég tel að það sé af því að fólk vill breytingar. Lúkasjenkó hefur verið við völd í 27 ár en fólk vill breytingar. Það telur að ef kæmi annar forseti yrði það til batnaðar. Það trúir því þó enginn að það sé hægt, eins og staðan er núna,“ segir Svetlana. Victoria segir að mótframbjóðendur sitjandi forseta hafi verið mjög sterkir og opnað augu fólks varðandi margt.

Mótmælt hefur verið í 25 bæjum og borgum víða um landið. Victoria segir að í næsta nágrenni við mótmælin sé nær allt lokað; búðir og bókasöfn séu lokuð og götur sömuleiðis. Hún vonar að ástandið lagist sem fyrst svo skólastarf geti hafist á réttum tíma, 1. september. „Við vitum ekki hversu lengi þetta verður eða hvort þetta verður bara verra eða hvort þetta eigi eftir að lagast.“

epa08599619 People stage a picket to support the part of Belarusian society, who oppose the results of the Belarus Presidential elections, in front of the Belarus embassy in Riga, Latvia, 12 August 2020. More than six thousand activists were detained during the protests in Belarus. Long-time President of Belarus Alexander Lukashenko won the elections by a landslide with 80 percent of the votes. The opposition does not recognise the results and has questioned the transparency of the counting process. Belarusian opposition leader Svetlana Tikhanouskaya has fled to neighboring Lithuania.  EPA-EFE/Toms Kalnins
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Almenningur treystir ekki niðurstöðu kosninganna 

Margir telja að kosningasvindl hafi átt sér stað. Victoria bendir á að fyrir kosningarnar hafi verið gerðar skoðanakannanir sem hafi sýnt allt aðra niðurstöðu en varð í kosningunum. Fólk trúi því ekki að sitjandi forseti hafi í raun og veru fengið 80 prósent atkvæða. Yfirvöld segja að hans helsti andstæðingur, Svetlana Tsíkhanovskaja, hafi fengið um 10 prósent. Hún flýði land í gær og er í Litháen. Eiginmanni hennar, Siarhei Tsikhanovsky, sem hugðist bjóða sig fram til forseta, var varpað í fangelsi og er þar enn, ásamt forsetaframbjóðandanum Viktor Babariko. 

Lögregluofbeldið fordæmt 

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa efast um gildi kosninganna. Margir hafa einnig fordæmt lögregluofbeldið. Það gerði mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Michelle Bachelet, í dag og sagði að fólk hefði rétt á að láta skoðun sína í ljós, sérstaklega þegar kæmi að kosningum. Hvítrússnesk yfirvöld leyfðu ekki alþjóðlegt kosningaeftirlit um helgina. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi