Fyrrum yfirmaður Wirecard eftirlýstur

13.08.2020 - 01:51
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Þýsk yfirvöld biðla nú til almennings um ábendingar sem gætu leitt til handtöku fyrrverandi yfirmanns greiðslumiðlunarfyrirtækisins Wirecard. Wirecard fór á hausinn í júní eftir að hafa viðurkennt að tæplega tveir milljarðar evra sem sýndir voru á reikningum fyrirtækisins væru í raun ekki til. Síðan upp komst um hneykslið hefur Jan Marsalek verið á flótta, en hann er grunaður um stórfelldan fjárdrátt.

Marsalek, sem er fertugur Austurríkismaður, var ákærður í júní. Vegna þýskra persónuverndarlaga var nafn hans ekki gert opinbert af yfirvöldum fyrr en nú. Ríkissaksóknari í München sakar Marsalek um að hafa stýrt svikamyllu og brotið margvísleg eigna- og efnahagslög. Yfirvöld telja hann í felum utan Þýskalands, að sögn Deutsche Welle.

Þrír fyrrverandi yfirmenn fyrirtækisins hafa verið handteknir, þar á meðal framkvæmdastjórinn. Milljarðarnir tveir, sem samsvara um 300 milljörðum króna, voru skráðir í áhættustýringu á Filippseyjum í uppgjöri fyrirtækisins. Endurskoðandinn Ernst & Young neitaði að undirrita ársreikninga í júní þar sem peningarnir fundust hvergi. Seðlabanki Filippseyja lýsti því svo yfir að peningarnir hafi aldrei komið inn í bankakerfi landsins, og viðurkenndi stjórn Wirecard þá að peningarnir væru líklega ekki til. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi