Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Framhaldsskólar hefja önnina í fjarkennslu

Mynd með færslu
 Mynd: MS - Menntaskólinn við Sund
Menntaskólinn við Sund hefur haustönnina á fjarkennslu meðan hundrað manna samkomutakmarkanir eru í gildi. Raun- og listgreinar verða kenndar í skólanum eftir fremsta megni en bóklegar greinar og íþróttir í fjarkennslu.

Menntaskólinn í Kópavogi setur nú upp alla bóklega kennslu með fjarkennsluformi svo að skólahald raskist ekki og mun kennsla verklegra greina verða í bland á staðnum eða í fjarnámi.

Þá hefur upphafi skólaárs í Verkmenntaskólanum á Akureyri verið frestað til 20. ágúst meðan unnið er að endurskipulagningu vegna fjöldatakmarkana. Áfangar þar verða kenndir í fjar- og staðarnámi í bland.

Ekki hægt að starfa við fjöldatakmörkun stjórnvalda

„Þetta er eina leiðin fyrir okkur eins og skólastarfið hér er skipulagt,“ segir Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund í samtali við fréttastofu. „Akkilesarhællinn er fjöldatakmörkunin við hundrað manna viðmiðið. Það eru ekki fjarlægðarmörkin.“ 

Sérstaklega verður þó tekið á móti nýnemum áður en fyrsti kennsludagur hefst, líkt og fleiri framhaldsskólar hafa boðað, en kennsla byrjar mánudaginn 24. ágúst í MS.

Verzló og Menntaskólinn við Hamrahlíð eru, meðal annarra,  ekki búnir að ákveða eða gera opinbert sitt fyrirkomulag. Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur þó boðað nýnema á kynninguog leggur Verzló áherslu á að nýnemar hafi forgang um aðgang að skólanum fyrstu skóladagana.

Á morgun taka nýjar sóttvarnarreglur gildi, þá verður eins metra reglan heimil í skólum landins en samkomutakmarkanir haldast enn við 100 manna hámark. Þær eru í gildi í tvær vikur eða til og með 27. ágúst.