Fjórir starfsmenn og tíu íbúar í sóttkví

13.08.2020 - 18:48
Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs á Eir, Hömrum og Skjóli og öryggisíbúðum Eirar. Kórónuveirusmit kom upp hjá starfsmanni Hamra.
Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar. Mynd: RÚV
Fjórir starfsmenn hjúkrunarheimilisins Hamra í Mosfellsbæ og tíu íbúar eru í sóttkví eftir að einn starfsmanna hjúkrunarheimilisins greindist með COVID-19. Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs á Eir, Hömrum og Skjóli og öryggisíbúðum Eirar, segir íbúa og aðstandendur þeirra sýna málinu skilning.

Greint var frá því í hádeginu að kórónuveirusmit hefði komið upp á Hömrum, en 30 manns búa á heimilinu og sem verður lokað fyrir heimsóknum næstu daga.

Kristín segir í samtali við fréttastofu starfsmanninn, sem stafar við umönnun, hafa verið að mæta á þriðjudag á sína fyrstu vakt eftir sumarfrí. Hann hafi svo verið í vinnunni í tvo og hálfan tíma, er hann fékk símhringingu frá nánum aðstandanda um að hann væri COVID smitaður. Eftir að hafa fengið þær fréttir fór starfsmaðurinn af vaktinni og að lokinni skimun kom í ljós að hann er einnig smitaður af veirunni.

„Það fyrsta sem við gerðum var að setja eininguna í sóttkví,“ segir Kristín og kveður starfsmanninn hafa umgengist fáa þennan dag. Hömrum er skipt upp í þrjár íbúðaeiningar og var einni einingunni lokað fyrir utanaðkomandi umferð. „Það búa allir búa í einbýlum, þannig að það var auðveldur leikur að setja deildina í sóttkví,“ útskýrir hún.

Kristín segist ekki geta svarað því hvort að starfsmaðurinn hefði átt að mæta til vinnu, þar sem grunur lék á smiti nákomins ættingja. „Viðkomandi kom til vinnu og við vissum ekki af að þetta hefði komið upp í hans fjölskyldu.“

Reyna að halda íbúum fjarri hver öðrum

Ákveðinn hópur starfsfólk vinnur nú eingöngu á einingunni þar sem starfsmaðurinn vann og er passað upp á að enginn blöndun sé milli starfsfólks og íbúa þessarar einingar og hinna. „Við reynum að halda íbúum fjarri hver öðrum og þeir sem við teljum hafa verið útsettari, þeirra er betur gætt og þar er meiri varúðarráðstöfun,“ segir Kristín bætir við að hluti íbúanna tíu þurfi að hafast við á herbergjum sínum en aðrir geti líka verið í sameiginlegu rými i einingunni á meðan að tveggja metra reglunnar sé gætt.

Sérstakra varúðarráðstafana er gætt varðandi allt sem fer út af deildinni, starfsfólk klæðist hlífðarfatnaði og allir snertifletir eru sótthreinsaðir. „Þannig meðhöndlum við þetta næsta hálfa mánuðinn eins og reglur kveða á um.“

Unnið er að því að tryggja mönnun á deildinni næsta hálfa mánuðinn. „Við erum svo heppin að okkar systraheimili Eir og Skjól eru að aðstoða okkur og við munum manna með hjálp þeirra og leita líka til þeirra sem hafa verið í sumarafleysingum,“ segir Kristín.

Gerðum allt sem á okkar valdi stóð

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að öllum reglum hefði verið fylgt á hjúkrunarheimilinu. Kristín vill ekki tjá sig um það hvort reglurnar séu nógu skýrar en segir forsvarsmenn hjúkrunarheimilanna hafa sagt starfsfólki frá upphafi að leiki minnsti grunur á veikindum að þá eigi að hafa samband við starfsstöðina, tala við hjúkrunarfræðing og láta vita. Sé viðkomandi svo með einkenni eigi hann enn fremur að leita til heilsugæslu og fá sýnatöku.

„Þannig að við erum búin að gera allt sem er í okkar valdi til þess að koma þessum upplýsingum til starfsmanna, en ég get ekki svarað því af hverju þetta var svona í þessu tilviki,“ segir hún og kveður starfsmanninn vera einkennalausan enn sem komið er.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi