„Ferðamaðurinn ekki búinn að borga fyrir ferð sína“

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, telur að gjald fyrir hverja sýnatöku á landamærum þyrfti að hlaupa á tugum þúsunda til þess að svara kostnaðinum sem stafar af áhættunni sem fylgir „opnum“ landamærum. Hún segir að töluverður kostnaður falli á aðra en ferðamanninn vegna áhættu af komu hans. Tinna var í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 í morgun.

Tinna sagði fyrr í sumar að gjald fyrir skimun ætti að vera mun hærra en fimmtán þúsund krónur. Gjaldið nam áður þeirri fjárhæð en var svo lækkað niður í ellefu þúsund krónur. Tinna segist hafa styrkst í sinni trú nú þegar reynsla er komin á landamæraskimun. 

„Það var ljóst áður en farið var af stað að gjaldið væri of lágt miðað við það sem er þjóðhagslega hagkvæmt,“ segir Tinna. Hún bætir við að á þeim tímapunkti hafi ekki legið fyrir hversu mikil áhættan hafi verið, til dæmis hvort smit bærust inn í landið og þá í hve miklum mæli. „Þegar maður horfði á kerfið eins og það var sett upp gat maður séð að það myndi leiða til óhóflegrar áhættu. Þetta er svolítið svipað því sem var fyrir síðasta hrun af því að nú erum við í ákveðnum efnahagsþrengingum. Við erum að ráða ráðum okkar þannig að það verði sem minnstar efnahagsþrengingar en að sumu leyti þurfti maður ekkert að reikna mikið til að sjá að fjárhagslegir hvatar í kerfinu leiddu til áhættutöku. Við erum svolítið í sömu stöðu núna að við erum að búa til kerfislæga áhættu umfram það sem er þjóðhagslega hagkvæmt,“ segir hún.

Tinna segir að þegar fram líða stundir sé hægt að reikna út hversu mikil áhætta var tekin og þannig hve hátt gjaldið ætti að vera til þess að geta talist hagkvæmt. „Þá útreikninga byggi ég á raungögnum, við sjáum hver kostnaðurinn hefur orðið vegna ferðafólks, hverjir svo sem það eru, yfir landamærin.“

Ferðafjöldinn væri ekki sá sami

Tinna segir að það komi eflaust sumum á óvart að hagfræðingar séu nú að stíga fram og tala fyrir takmörkunum á ferðafrelsi. Hins vegar hefur hagfræðin ýmis tól til að reikna út ávinning og fórnir, jafnvel þegar um er að ræða óáþreifanlega þætti á borð við heilsu og lífsgæði. Tinna segir að málin geti vandast þegar gera þurfi ráð fyrir kostnaði sem fellur ekki á viðskiptaaðilana sem eiga í hlut, svokölluð ytri áhrif. 

„Núna er þetta þannig að það er töluverður kostnaður sem fellur á aðra. Ef þessi kostnaður félli á ferðamanninn sjálfan, hversu líklegt væri að hann færi yfir landamærin? Ef prófið væri hundrað prósent öruggt væri auðvelt að leysa þetta. Þá myndi ferðamaðurinn bara taka allan þennan kostnað til að borga prófið. En núna, jafnvel þótt hann borgaði fullt gjald fyrir prófið, þá er hann ekki búinn að borga fyrir ferð sína yfir landamærin,“ segir Tinna.

En hver er þessi ytri kosnaður í tilfelli ferðamanns sem kemur yfir landamærin? Tinna nefnir kostnað sem fellur til vegna smitrakningar, heilbrigðiskerfisins, sóttkvíar og einangrunar. Einnig er um að ræða óbeinan kostnað, svo sem heilsufarslega ógn og fórnir sem fólk þarf að færa vegna hættu á smitum og ýmissa takmarkanna í samfélaginu. 

Tinna bendir á að útreikningar hennar séu háðir sveiflum og því nauðsynlegt að setja varnagla við niðurstöður þeirra. „Miðað við íhaldssamasta mat hleypur þessi kostnaður hins vegar á tugum þúsunda fyrir hvern aðila sem fer inn á landamærum. Ég myndi halda að ef fólk þyrfti að borga þessa fjárhæð, miðað við íhaldssamasta mat, þá myndi það stoppa einhverja. Ferðafjöldinn yfir landamærinn væri ekki sá sami og hann er,“ segir hún. 

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild í spilaranum hér fyrir ofan. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi