Færeyingar álíta sig vera að ná böndum yfir faraldurinn

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Virk kórónuveirusmit í Færeyjum töldust 114 í gær. Það er mesti fjöldi smita í eyjunum frá upphafi, en þau voru 102 þegar faraldurinn náði hámarki í vor.

Þá dreifði veiran sér ekki jafn hratt og hún gerir nú og í apríl var svo komið að nánast enginn greindist smitaður. Þrátt fyrir hinn mikla fjölda smitaðra nú telja færeysk heilbrigðisyfirvöld sig vera að ná böndum á faraldurinn.

Fleiri eru skimuð en nokkru sinni fyrr og nýjum smitum virðist vera að fækka. Alls hafa 339 greinst með Covid-19 í Færeyjum og yfir 63 þúsund hafa verið skimuð. Ríflega þúsund bíða enn niðurstöðu skimunar. Fleiri en 900 eru nú í sóttkví en enginn liggur á sjúkrahúsi.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi