Dregur úr seltu sjávar

Hafið
 Mynd: ruv
Selta sjávar lækkaði á  árunum 2017-2018 og hiti í efri lögum sjávar við landið sunnan- og vestanvert var um eða undir langtímameðallagi, en um eða yfir meðallagi fyrir norðan og austan.

Þetta eru helstu niðurstöður skýrslu um ástands sjávar á árunum 2017 og 2018 sem birt hefur verið á vef Hafrannsóknastofnunar.

Vöktun á ástandi sjávar er eitt af föstum verkefnum stofnunarinnar og er markmiðið að vakta langtímabreytingar á umhverfisþáttum í hafinu umhverfis Ísland. Er það gert með endurteknum mælingum m.a. á hitastigi, seltu og súrnun sjávar í fjórum rannsóknaleiðöngrum sem farnir eru ár hvert.

Sólveig Rósa Ólafsdóttir, einn höfunda skýrslunnar, bendir á að breytingar á ástandi sjávar hafi áhrif á framvindu mikilvægra þátta vistkerfisins og vistkerfisins í heild.

Í skýrslunni kemur fram að hiti og selta í hlýsjónum sunnan og vestan við landið fór hækkandi eftir 1995 og þar til 2003-2004 var útbreiðsla hlýsjávar umhverfis landið sú mesta sem mælst hefur. Hiti og selta í sjónum sunnan- og vestanlands voru áfram vel yfir meðallagi árið eftir, en hiti hafði þó heldur lækkað frá því sem var 2003-2004.

Árin þar á eftir, eða 2005-2007 var útbreiðsla hlýsjávar fyrir norðan land, heldur minni en taldist þó yfir meðallagi. Árin 2008 til 2010 jókst útbreiðsla hlýsjávar fyrir norðan land, einkum að sumri til og yfirborðslög voru áberandi heitari en 2007.

Á árabilinu 2011-2014 voru hiti og selta yfir meðallagi fyrir sunnan- og vestanlands, en höfðu þó lækkað frá fyrri áratug. Árið 2015 voru bæði hiti og selta lægri sunnan við land og vestan heldur en verið hafði næstu 20 árin þar á undan og hélt sú þróun áfram á árinu 2016.

Lóðrétt blöndun á Labrador- og Grænlandshafi

Vorið 2015 varð veruleg lækkun á hita efri laga úti á Selvogsbanka líkt og vestur af landinu og bendir Sólveig á að breytingar hafi orðið á seltu sjávar víða á Norður-Atlantshafi á árunum eftir 2010 og margt bendir til þess að veruleg lóðrétt blöndun hafi orðið á Labradorhafi og Grænlandshafi, á árunum 2012-2016.

Segir hún þetta hafa orðið vegna þrálátra norðlægra og norðvestlægra vindátta. „ Þessi sjór barst svo upp að sunnan- og vestanverðu landinu einu til tveimur árum síðar og kemur það fram sem veruleg kólnun efri sjávarlaga eða um 1°-2°C lækkun ásamt seltulækkun.“

Þeirrar seltulækkunar virðist áfram vera vart árin 2017 og 2018, en líkt og fram kemur í skýrslunni þá hafði selta lækkað nokkuð frá fyrri árum.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi