Brexit, fiskveiðar og þorskastríð

13.08.2020 - 09:52
Mynd: RÚV / RÚV
Sjávarútvegsmálin eru erfiður hjalli í samningum Breta við Evrópusambandið um framtíðina. Þau mál mótast meðal annars af tilurð fiskveiðistefnu ESB og þar koma þorskastríðin beint og óbeint við sögu.

Lærdómur seinni heimstyrjaldarinnar: samvinna

Einn lærdómurinn af seinni heimstyrjöldinni var mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu. Í Evrópu spíraði efnahagssamvinna: traust viðskipti myndu efla samstöðu og samhug. Úr varð Rómarsáttmálinn 1958 sem sex lönd, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Benelux löndin þrjú gerðu með sér.

Bretar vaklandi

Nei, ekki Bretland. Bretar voru vaklandi en sumir þeirra ályktuðu sem svo eftir Súez-deiluna 1956 og fleira að Bretland væri kannski ekki lengur þvottekta heimsveldi, vænlegra að tengjast Evrópu. Fimm lönd Rómarsáttmálans tóku Bretum vel en ekki Frakkland undir stjórn gamla herforingjans Charles de Gaulle.

De Gaulle, Piaf og Macmillan

Í heimsókn hjá de Gaulle 1962 viðraði Harold Macmillan forsætisráðherra Breta vilja Breta í átt að þessari nýju Evrópusamvinnu. De Gaulle sagði ráðherrum sínum síðar að Macmillan hefði verið gráti nær þegar de Gaulle hafnaði erindinu. Hershöfðingjann langaði mest að gera eins og Édith Piaf, sagði hann, faðma að sér þennan grátandi herramann.

De Gaulle taldi Breta of framandi í Evrópusamvinnu

Líkt og Piaf undraðist de Gaulle tár breska herramannsins en þau bræddu ekki hershöfðingjahjartað. Eftir að slá úr og í var svar de Gaulle 1963 skýrt „non“.

England væri, sagði hershöfðinginn á frægum blaðamannafundi, eyland og sjóveldi, iðulega tengt öðruvísi og fjarlægum löndum. Bretland og breska hagkerfið alltof ólíkt löndunum sex. Hann leyfði Bretum þó að reyna aftur áður en hann hafnaði þeim enn 1967, jafn óvænt og áður.

Nýr Frakklandsforseti, ný sýn á Breta

Það var ekki fyrr en 1969, með nýjum forseta, George Pompidou, að Bretar fengu grænt ljós á aðildarviðræður. Og þá í samingasamfloti við helstu viðskiptaþjóðir sínar: Dani, Íra og Norðmenn, þó þeir síðastnefndu hættu við á endanum eins og kunnugt er.

Heath: einangrun hentar ekki Bretum

Edward Heath forsætisráðherra Breta var ánægður með aðildina að sameiginlega Evrópumarkaðnum.

Löndin náðu að sameinast sem nágrannar, sagði Heath, og ná þannig í samvinnu mörgum sameiginlegum markmiðum sem þau gætu með engu móti vonast til að ná í einangrun. – Orðinu ,,einangrun“ beindi Heath ljóslega til landa sinna.

Alþjóðasamvinna í hafréttarmálum

En alþjóðasamvinnan spíraði víðar. Mál málanna á áttunda áratugnum voru meðal annars hafréttarmál, jafnt á Íslandi sem á alþjóðavettvangi. Það var að renna upp fyrir alþjóðasamfélaginu að það gilti ekki lengur að lengi tekur sjórinn við, heldur ekki að sjórinn gæfi endalaust. Ekki síst þegar togarar urðu sífellt öflugri í að moka upp aflanum. Í viðbót var það vinnsla efna undir og á sjávarbotni.

Sjávarútvegsþjóðir víkkuðu sjóndeildarhringinn í Evrópusamvinnunni

Þessar alþjóðahræringar höfðu einnig áhrif í aðildarlöndum Efnahagsbandalagsins nýja. Fiskveiðar voru aðeins nefndar einu sinni í Rómarsáttmálanum. Þá í samfloti við landbúnaðarmál sem fengu rausnarlega athygli í þessu nýja bandalagi landbúnaðarlanda. Nú þegar sjávarútvegsþjóðir voru að leita aðildar var brýnt fyrir löndin sex að huga frekar að sjávarútvegi.

Á sama degi 1970: útfærsla evrópskrar fiskiveiðistefnu, viðræður við ný lönd

Daginn sem aðildarviðræðurnar hófust formlega, 30. júní 1970, samþykktu löndin sex lagalegan grunn að sameiginlegri fiskveiðistefnu, bæði um veiðar og markað. Ein forsendan var að þar sem löndin deildu fiskimiðum yrði aflanum deilt milli landanna. En það fylgdi þó engin skiptiformúla.

Nei, dagsetningin var engin tilviljun. En þarna var líka verið hnykkja á að nýju aðildarríkin yrðu síðan með í að móta fiskveiðistefnuna. Bretar, Írar og Danir gengu svo í Evrópusamvinnuna í ársbyrjun 1973.

Alþjóðahræringar í átt að 200 sjómílum

Það ár var líka örlagaríkt í hafréttarmálum: þá hófst þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Hugmyndirnar sem síðar mótuðu Hafréttarsamning þeirra 1982 höfðu verið í deiglunni frá því á 7. áratugnum. Þegar leið á 8. áratuginn varð ljóst að alþjóðleg viðmið um landhelgi stefndu í 200 sjómílur.

Bretar á móti 200 mílum, hvar sem var

Íslendingar biðu ekki alþjóðasamninga heldur færðu út landhelgina í 200 mílur 1975. Á alþjóðavettvangi voru Bretar á móti 200 mílna landhelginni. Og létu líka hart mæta hörðu á Íslandsmiðum.

1976: Bretar láta af andstöðu við 200 mílur, líka í ESB

Í júníbyrjun 1976 sættust Bretar loks á íslensku landhelgisútfærsluna. Í júlí sama ár féllust Bretar á frekari þróun evrópskrar fiskveiðistefnu; þá einnig að 200 sjómílur yrðu viðmið evrópskrar efnahagslögsögu. Þar með lauk loks andstöðu Breta við 200 mílurnar.

Næsti kafli evrópsku fiskveiðistefnunnar: leitin að stöðugleika

Þá var komið að næsta kafla í mótun evrópskrar fiskveiðistefnu, leitinni að stöðugleika, bæði fyrir veiðar og vinnslu, meira um það síðar. Þorskastríðið hafði enn áhrif og allt hafði þetta áhrif á Brexit.

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi