Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Banna reykingar á almannafæri vegna COVID

13.08.2020 - 17:31
epa08600783 Local police inform a man drinking at a bar terrace about the ban of smoking in the street in La Coruna, Galicia, Spain, on the first day the new law came into force, 13 August 2020. Galicia has banned people from smoking in the street if social distancing is not possible, in an attempt to refrain coronavirus outbreaks.  EPA-EFE/Cabalar
Lögregla í Galisíu kynnir reykingabannið fyrir kaffihúsagestum. Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfirvöld í Galisíu á Spáni hafa nú bannað reykingar á almannafæri vegna ótta við að reykingarnar kunni að auka hættuna á kórónuveirusmiti. Eru reykingar nú bannaðar í héraðinu á götum úti og á veitingastöðum og börum í þeim tilfellum þar sem fjarlægðartakmörkum verður ekki við komið.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá og segir Galisíu hafa verið fyrsta spænska héraðið, til að grípa til þessa ráðs. Yfirvöld á Kanaríeyjum hafa nú fylgt í kjölfarið.

Kórónuveirutilfellum hefur farið fjölgandi á ný á Spáni undanfarið. Í júní greindust um 150 tilfelli á dag, en í ágúst hafa um 1.500 tilfelli verið að greinast daglega. Í dag greindust 1.690 ný smittilfelli og hafa þar með alls 330.000 manns smitast af COVID-19 á Spáni.

BBC segir spænska heilbrigðisráðuneytið styðja aðgerðirnar, en í rannsókn sem ráðuneytið birti í síðasta mánuði er fjallaði um tengsl reykinga og útbreiðslu veirunnar. Er ein helsta ástæða tengslanna sögð vera dropasmit þegar reykingafólk blæs reyknum frá sér.

Rannsakendur segja reykingafólk einnig vera í aukinni smithættu er þeir snerta sígarettuna og færa að munni sínum, sem og með því að fikta í grímunni þegar verið er að taka hana af og setja á aftur.

Reykingarnar sjálfar setji hafi þá einnig neikvæð heilsufarsáhrif. „Það hefur verið sannað að tóbaksnotkun í hvaða formi sem er hraðar ferli öndunarfærasjúkdóma,“ segir í rannsókninni. „Nýjustu vísbendingar benda til þess að reykingar séu tengdar ... aukinni hættu á að þróa með sér alvarleg einkenni sjúkdómsins.“