Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ætla að styðja betur við menninguna

Mynd með færslu
 Mynd:

Ætla að styðja betur við menninguna

13.08.2020 - 16:06

Höfundar

Menntamálaráðherra á von á því að stutt verði betur við menningarlíf landsins en segir að enn þá sé ekki ljóst hvernig stuðningurinn verður útfærður. Stjórnvöld skoða nú tillögur sem félög tónlistarmanna hafa sett fram.

Skýrsla um áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað kom út í júní. Þeir sem stóðu að henni eru Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag hljómplötuframleiðenda, Samtök flytjenda og hljómplötuframleiðenda, STEF, Tónlistarborgin Reykjavík og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar.  Samstarfshópur þessara félaga á nú í viðræðum við stjórnvöld um hvernig halda megi tónlistarlífi í landinu gangandi. Gríðarlegt tekjufall hefur orðið hjá tónlistarfólki og tengdum greinum því þúsundum viðburða hefur verið aflýst.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti minnisblað um mögulegar aðgerðir til að endurvekja tónlistarlíf landsins fyrir ríkisstjórn í vikunni.  

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs og María Rut Reynisdóttir, verkefnastjóri hjá Tónlistarborginni Reykjavík, sögðu í Speglinum í gær að vegna fjarlægðartakmarkana borgi sig ekki lengur að halda tónleika. Ef á annað borð á að vera einhver menningarstarfsemi í boði, þurfi hugsanlega að koma til einhver niðurgreiðsla. 

Lilja segir að til að byrja með hafi ekki verið ljóst hvort verið væri að móta aðgerðir til lengri eða skemmri tíma en nú sé ljóst að ýmist þurfi að slaka á og herða aðgerðir. 

 „Þá þurfum við að sjá hvaða áhrif er þetta er að hafa á fólkið okkar. Við vitum það að einhverju leyti en nú eru komnar tillögur sem eru mjög skýrar og við erum að skoða og erum jákvæð gagnvart því og líka hvernig fyrri fjárveitingar eru að koma út. 

Áttu von á því að stjórnvöld setji meira fjármagn til þess að styðja við tónlistarlífið, til þess að koma tónlistarlífinu í gang í vetur?  Ég á von á því að við munum styðja betur við menninguna, það eru svona ákveðin fyrirheit um það. Hvernig það verður nákvæmlega útfært, við erum ekki komin það langt í þessari vinnu.
 
Lilja segir að tónlistar- og sviðslistafólk hafi verið duglegt við að benda á mögulegar lausnir. Finna þurfi leiðir til að halda tónleika.    
„Við munum gera það sem þarf til þess að við getum notið þess að búa í þessu landi, að við getum farið á tónleika, að við getum farið á leiksýningar og það sem þarf líka að gera núna er að það þarf að skoða dæmið upp á nýtt, það er að segja getur verið að það sé hægt að reka þetta, að þetta verði sjálfbært með því að við hugsum húsnæðið upp á nýtt eins og við höfum þurft að gera víða.“

Mögulega þurfi að nýta húsnæði í framtíðinni með betri hætti.  

„Er í myndinni að það verði settar einhverjar sérstakar reglur í samráði við sóttvarnayfirvöld, eins og með skólana þar sem eru núna eins metra fjarlægðarmörk, að það verði sérstakar reglur með tónleikahald?
Ég útiloka ekkert í þeim efnum eins og ég segi. Eins og við sjáum varðandi íþróttirnar þá er verið að gera nýtt regluverk í tengslum við þær. Mestu máli skiptir eins og fyrir sviðslistirnar að leikararnir okkar og tónlistarfólkið, að það náí að mæta á æfingar til þess að undirbúa veturinnn. Þannig að við erum bara að skoða allt slíkt í mjög nánu samstarfi við sóttvarnayfirvöld.“ 

„Hvenær eigum við von á því að heyra um aðgerðir stjórnvalda vegna tónlistarlífsins og menningarlífsins í landinu?  Eitt af því sem við erum að gera núna, við erum að vinna í fjárlögum næsta árs og við erum að skila tillögum til okkar hvað það varðar. Við erum einnig að vinna í fjárfestingaráætlun ríkisins þannig að við munum sjá það á næstu vikum, þá sýnuum við á þessi spil.“
  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þúsundum tónlistarviðburða aflýst