
Vilja setja á fót nýtt garðyrkjunám á Íslandi
Berglind Ásgeirsdóttir situr í stjórn félagsins sem hefur þegar óskað eftir viðræðum við menntamálaráðherra til að leita samninga um grunnnám í garðyrkju á framhaldsskólastigi. Hún segir að það væri álíka því námi sem býðst til dæmis í Kvikmyndaskóla Íslands, Ljósmyndaskóla Íslands, Tækniskólanum og Fisktækniskóla Íslands.
„Tilgangur félagsins er fyrst og fremst að standa fyrir faglegri og vandaðri fræðslustarfsemi á sviði garðyrkju og tengdra greina og þannig búa nemendur í garðyrkju sem best fyrir þau fjölbreyttu störf sem bíða á sviði garðyrkju og tengdum greinum og einnig til áframhaldandi náms,“ segir Berglind.
Telur garðyrkjunámi í LBHÍ ábótavant
Á Íslandi er einungis hægt að stunda nám í garðyrkjufræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar er boðið upp á þriggja ára grunnnám á framhaldsskólastigi. Berglind segir náminu þar ábótavant og skorta aukið samtal við atvinnulífið.
„Þar er náttúrulega þetta akademíska umhverfi og áherslur sem eru óhjákvæmilegar þegar um nám á vegum háskóla er að ræða. Okkur hefur þótt skorta raunverulegar áherslur á starfsmenntanámið og raunverulegt samstarf við atvinnulífið sem býður þá upp á sveigjanlegri og fjölbreyttari nálgun bæði fyrir nemendur og almenning.“
Staðsetning óráðin
Hún segir mögulega staðsetningu námsins og önnur atriði ekki enn útfærð, en það yrði þá líklega gert í samtali við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Samstarf við LBHÍ um námið er ekki í kortunum.
Berglind segir þá að félagið hafi fengið mjög góðar viðtökur, jafnt frá fagheiminum sem og áhugafólki um garðyrkju. Næstu skref felist í því að halda félagsfund um leið og samfélagslegar aðstæður leyfa þar sem starfandi garðyrkjufólki verður boðið til þátttöku.