Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Uppgötvuðu áður óþekkta risaeðlutegund

12.08.2020 - 12:59
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Steingervingafræðingar í Bretlandi hafa fundið bein sem tilheyra áður óþekktri risaeðlutegund. Beinin, sem eru fjögur talsins, tilheyra tegund af sama ættbálki og grameðla. Beinin fundust á eyjunni Isle of Wight, undan suðurströnd Englands. Talið er að tegundin hafi verið uppi á krítartímabilinu fyrir um 115 milljónum ára.

Tegundinni hefur verið gefið heitið Vectaerovenator inopinatus og talið er að hún hafi verið allt að fjögurra metra löng. Bein risaeðlunnar eru að miklu leyti hol að innan, líkt og í fuglum.

Steingervingarnir fundust allir í fyrra. Þeir eru nú til sýnis í risaeðlusafni í Sandown á Isle of Wight. Chris Barker, doktorsnemi sem stýrði rannsókninni, segir í samtali við BBC að það hafi komið steingervingafræðingum á óvart hversu hol bein dýrsins voru. Að sögn vísindamannanna voru holrými beinanna framlenging af lungum dýrsins og þjónuðu sennilega þeim tilgangi að gera öndun skilvirkari, auk þess að létta á skepnunni. 

Barker segir afar spennandi að bein risaeðlu af þessum ættum finnist í Evrópu. Afar fáir steingervingar af risaeðlum frá mið-krítartímabilinu hafi fundist í álfunni. Á Isle of Wight hafa margsinnis fundist steingerðar leifar risaeðla, en flestar hafa þær verið frá því snemma á krítartímabilinu. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV