Þúsundum tónlistarviðburða aflýst

Mynd: Bergljót Baldursdóttir / Bergljót Baldursdóttir

Þúsundum tónlistarviðburða aflýst

12.08.2020 - 16:11

Höfundar

Samstarfshópur tónlistarfólks á í viðræðum við stjórnvöld um hvernig halda megi tónlistarlífi í landinu gangandi. Gríðarlegt tekjufall hefur orðið hjá tónlistarfólki og tengdum greinum því þúsundum viðburða hefur verið aflýst. Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs og María Rut Reynisdóttir, verkefnastjóri hjá Tónlistarborginni Reykjavík, segja að horfurnar séu dökkar. 

Misstu vinnuna á einum bretti

Tónleikum, tónlistarhátíðum og tónleikaferðum erlendis hefur verið aflýst, brúðkaup, útfarir og árshátíðir eru með breyttu sniði, veitingahús og hótel hafa lokað og ólíklegt að stórir jólatónleikar verði haldnir á ár

Skýrsla um áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað kom út í júní. Þeir sem stóðu að henni eru Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag hljómplötuframleiðenda, Samtök flytjenda og hljómplötuframleiðenda, STEF, Tónlistarborgin Reykjavík og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar.  

Strax í mars hafði öllum tónleikum verið aflýst og öllum öðrum viðburðum þar sem tónlistarfólk kom fram, eins og árshátíðum og fleiri viðburðum.

„Og svo auðvitað fylgir það að hverjum einasta tónlistarmanni fylgir heill stuðningshópur, ljósamenn og hljóðmenn og tæknimenn og síðan tónleikastaðirnir, bókarar, umboðsmenn og svo má lengi telja sem um leið misstu bara þarna á einu bretti sína vinnu.“  

Lifandi tónlist hefur á undanförnum árum orðið helsta tekjulind tónlistarfólks og þeirra sem starfa með þeim því plötuútgáfa gefur ekki lengur af sér. Tugir staða hafa boðið upp á lifandi tónlist hér á landi.

Tónleikar, ársátíðir, brúðkaup og jarðafarir

„Harpa ein og sér var með þúsundir viðburða á síðastliðnu ári. Ef við tökum bara Bæjarbíó - tugir viðburða, Græni Hatturinn á Akureyri - tugir viðburða o.s.frv. Og við þetta bætast allar árshátíðirnar og aðrar skemmtanir þar sem tíðkast að bjóða upp á lifandi tónlistarflutning til skemmtunar.  Þá eru þetta þúsundir viðburða sem hefur verið aflýst núna. Brúðkaup og jarðarfarir líka þetta er ansi stórt.“

Tónlist er ennþá leikin í útvarpinu og eitthvað kemur inn með stefgjöldum. Streymi hefur aukist tekjur meiri vegna þeirra.
 
„En það er bara lítill dropi í hafið og viðskiptavinir STEFS sem eru að spila tónlist í bakgrunni eru t.d. hótel og veitingastaðir og það hefur bara verið mjög mikið að gera hjá okkur á skrifstofunni í sumar að taka við símtölum viðskiptavina sem eru í vandræðum og eru að loka hjá sér, annaðhvort tímabundið eða jafnvel alveg.“

Því hafi STEF tapað miklum tekjum og tónhöfundar, bæði lagahöfundar og tónskáld einnig vegna þess að bakgrunnstónlistin hefur fallið niður. „Þannig að það er tekjufall á öllum stöðum, öllum vígstöðvum.“ 

 
Binda vonir við útspil stjórnvalda

Stjórnvöld kynntu átaksverkefni innan Tónlistarsjóðs fyrr á árinu. Fólk gat sótt um fjármagn til að setja af stað ný verkefni sem átti að ljúka fyrir lok 2021. Erfitt er þó að skipuleggja og setja af stað ný verkefni þegar óvissa ríkir. Upphæðir sem fáist úr sjóðum séu lágar og tónlistarfólk eigi erfitt með að koma með framlög á móti vegna tekjufalls. Bundnar séu vonir við útspil stjórnvalda.

„Við erum að biðja um það að það verði settur á laggirnar einhvers konar bótasjóður sem bætir fólki upp tekjufallið, rekstrarkostnað, óafturkræfan kostnað en sé ekki verið að biðja fólk um að skapa ný verkefni til að fá eitthvað í vasann.“

 Erfitt sé að skipuleggja fram í tímann og sérstaklega að ætla að vera með stærri viðburði og stærri tónleika.

„Ef við horfum bara á Eldborg, stærsta salinn í Hörpu, sem tekur 1400 manns þá er núna í mesta lagi hægt að vera með 100 manns þar, jafnvel þótt það myndi aukast í 200 eða þrjú hundruð eða jafnvel upp í 500 manns þá er samt alveg ljóst að það er tap af því að reyna að halda tónleika eingöngu fyrir 500 manns í Eldborg.“  

Óarðbært sé að standa fyrir stærri viðburðum í þessu árferði. „Og það verður örugglega þannig eitthvað fram í árið 2021 og þetta er eitt af því sem við viljum gjarnan að sé skoðað. Ef að á annað borð á að vera eitthvað í boði, einhver menningarstarfsemi að þá þarf hugsanlega  að koma til einhver niðurgreiðsla.

Engir jólatónleikar auglýstir

Fjölmörgum tónleikum hefur verið aflýst á árinu. Nú fer að styttast í jólin.   

„Í fyrra voru örugglega haldnir á milli tvö og þrjú hundruð tónleikar sem hægt er að segja að séu jólatónleikar. Núna sér maður ekki eina einustu jólatónleika auglýsta. Á sama tíma í fyrra var fyrir löngu byrjað að selja miða á stærstu og vinsælustu jólatónleikana. Þetta eitt út af fyrir sig er gífurlegt högg fyrir tónlistariðnaðinn ef ekki verður hægt að halda jólatónleika. “
 
Ástandið bitnar einnig á minni tónleikastöðum því tveggja metra reglan og fjöldatakmarkanir gera það að verkum að einungis örfáir geta sótt þá staði. Tónlistarhátíðir hafa fallið niður og sömuleiðis eru tækifæri þeirra tónlistarmanna sem gera út á tónleikaferðir erlendis alveg glötuð. 

Samstarfshópur ræðir við stjórnvöld.

„Við áttum mjög góðan fund með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra fyrir nokkrum dögum og hún var mjög jákvæð og hafði greinilega kynnt sér þessa skýrslu sem við gáfum út. Kynnt sér hana vel og við vitum að í gær á ríkisstjórnarfundi þá lagði hún fram skýrsluna og tillögur að aðgerðum sem að voru kynntar þar. Og við bíðum bara spennt eftir að sjá hvað kemur út úr þessu samtali við ríkisstjórnina.“

Samstarfshópurinn á fund með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra á morgun.

„Þannig að samtalið er byrjað og við erum bjartsýn að það verði hægt að horfa einhvern veginn betur á þennan tiltekna hóp sem hefur bara orðið allra verst úti í þessu ástandi.“

Ekki mikið um stóra jólatónleika

Guðrún Björk og María Rut segja að ef eigi að halda tónlistarlífinu gangandi verði að finna til þess leiðir.  

„Eitt sem má bæta við þetta, af því við erum hérna hjá RÚV, að það eru nú sjónvarpsstöðvarnar sem vettvangur fyrir lifandi tónlistarflutning á þessum tíma er hægt að auka vægi þeirra og auka við lifandi tónlistarflutning á sjónvarpsstöðvum.“
 
Tónlistarmenn gera sér vonir um að stjórnvöld komi að borðinu og greiði niður viðburði svo hægt sé að halda smærri tónleika án þess að tapa miklu. Eins og staðan er núna er útlitið þó ekki gott og ef bara er litið til jólanna þá er ekki líklegt að verði mikið um stóra jólatónleika eða aðra viðburði.  

„Ég hugsa að við sjáum örugglega einhverja jólatónleika en þeir verða örugglega með minna sniði með minni íburði, færri að koma fram á hverjum tónleikum, á minni stöðum. Auðvitað reynir geirinn eins og hægt er að aðlaga sig ástandinu en þetta verður örugglega með breyttu sniði.“    

Tengdar fréttir

Innlent

„Opin“ landamæri mikil fórn fyrir lítinn ábata

Innlent

Opnun landamæra stefndi almannagæðum og efnahag í hættu