Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stöðvuðu strætó vegna gruns um ölvun vagnstjóra

12.08.2020 - 11:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan stöðvaði strætisvagn á tíunda tímanum í morgun vegna gruns um ölvun vagnstjóra undir stýri. Að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó bs. var vagnstjórinn látinn blása í áfengismæli og að því loknu ekið á brott í lögreglubíl.

Vagninn, sem var á leið 17, var stöðvaður ofarlega á Laugavegi. Engir farþegar voru í vagninum þegar hann var stöðvaður af lögreglu. Að sögn Guðmundar hafði bílstjórinn ekið vagninum frá því klukkan 6:40 í morgun. Guðmundur segir fregnirnar mikið áfall, en atvik af þessu tagi eru fátíð. 

„Ef rétt reynist þá er það vítavert gáleysi af hálfu starfsmannsins og við fordæmum það með öllu. Hann er ekki aðeins að stofna viðskiptavinum sínum í hættu heldur öllu nærumhverfi sínu. Ef þetta er rétt þá á viðkomandi bílstjóri ekki afturkvæmt til Strætó,“ segir hann. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV