Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skútan Vera veldur hugsanlega hljóðinu á Akureyri

12.08.2020 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Eigandi skútunnar Veru sem hefur legið við Pollinn á Akureyri í sumar segir hugsanlegt að skútan orsaki torkennilegt hljóð sem hefur angrað Akureyringa að undanförnu. Hann segir niðurstöðu geta legið fyrir seinna í dag þegar segli verður komið fyrir í mastri skútunnar.

Hafði samband eftir fréttina á RÚV í gær

Eins og fjallað var um í kvöldfréttum RÚV í gær hefur undarlegt lágtíðnihljóð angrað fjölmarga íbúa Akureyrar að undanförnu. Eftir að fréttin fór í loftið í gær hafði eigandi skútunnar Veru sem liggur nú við Pollinn á Akureyri samband við einn viðmælanda fréttastofu og lýsti yfir hugsanlegri ábyrgð á hljóðinu. Þorkell Pálsson er einn forsvarsmanna skútunnar. 

„Jú jú það er hugsanlegt að hljóðið hafi komið úr mastrinu hjá okkur sko því að segl rúllast inn í mastrið en við tókum það niður fyrir nokkrum dögum síðan, þá kemur svolítið hljóð ef vindurinn stendur beint inn í mastrið, “ segir Þorkell.

Tók hljóðið upp 

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, hefur nú birt upptöku af hljóðinu torkennilega sem gert hefur mörgum íbúum á Akureyri lífið leitt að undanförnu. 

Ráðgátan leyst seinna í dag?

„Við ætlum að setja upp seglið í dag og þegar það er komið upp þá kemur ekkert hljóð. Þannig að það útilokar þá kenninguna ef að hljóð heyrist áfram,“ segir Þorkell.  

Þannig að þessi ráðgáta er hugsanlega leyst seinnipartinn í dag?

„Það er hugsanlegt já.“